Gestkvæmt á hálendinu sumarið 2021
Í upphafi ferðasumarsins er áhugavert að skoða gestatölur síðasta árs í ársskýrslu Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir árið 2021. Þar má glöggt sjá að gestkvæmt var á hálendisstöðum þjóðgarðsins sem og að slegið var met í fjölda gistinátta í Ásbyrgi. Áhrifa COVID 19 gætti enn töluvert á árinu 2021 og þá sérstaklega í fækkun erlendra gesta til landsins. Landsmenn voru hins vegar iðnir við að ferðast innanlands og það, ásamt veðurblíðu á austur helmingi landsins sumarið 2021 má telja helstu ástæðu fyrir álíka gestafjölda og fyrri ár á hálendissvæðum þjóðgarðsins.

Á mynd 1 sést að sveiflur í fjölda gesta á helstu hálendisstöðum er ekki eins mikil milli ára eins og sjá má á mynd 2, hvar töluverð lækkun er í gestafjölda í fjórum gestastofum þjóðgarðsins COVID árin 2020 og 2021.

Fjöldi gesta á nokkrum hálendisstöðum Vatnajökulsþjóðgarðs 2012-2021

Fjöldi gesta í fjórum af fimm gestastofum Vatnajökulsþjóðgarðs 2013-2021. Fjölda gesta í Skaftafellsstofu er ekki með á þessari mynd en finna má upplýsingar um Skaftafellsstofu í ársskýrslu 2021
Á mynd 3 sést svo að á tveimur tjaldsvæðum á hálendinu, í Snæfelli og í Blágiljum, var tölulverð fjölgun 2021 miðað við tvö ár á undan. Eins gistu fleiri í Snæfellskála sumarið 2021 en síðustu þrjú ár á undan.

Fjöldi gesta í skálum og tjaldsvæðum á hálendi Vatnajökulsþjóðgarðs 2018-2021
Ásbyrgi sker sig svo úr hvað varðar fjölda gistinátta. Sumarið 2021 voru gistinætur um 18.500 sem er mesti fjöldi sem skráður hefur verið. Eins sést glöggt að fjöldi Íslendinga á stærstu tjaldsvæðum þjóðgarðsins í Skaftafelli og Ásbyrgi hefur ekki verið meiri síðustu tíu ár, hvort sem horft er til 2020 eða 2021 (dökkbláu og dökkgrænu súlurnar á mynd 4).

Fjöldi gistinátta á tjaldsvæðum í Ásbyrgi og Skaftafelli 2012-2021
Gestir Vatnajökulsþjóðgarðs eru fjölbreyttur hópur sem vill upplifa og stunda útivist á margvíslegan hátt. Hlutverk þjóðgarðsins er fyrst og fremst að tryggja vernd náttúru og menningarminja svæðisins en einnig að bjóða gesti velkomna. Því er sjálfbær nýting lykilatriði í uppbyggingu innviða og stýringu ferðafólks enda eru svæði misviðkvæm fyrir ágangi mannsins. Þjónusta við gesti er áberandi þáttur í starfi þjóðgarðsins og má þar nefna gestastofur, upplýsingastöðvar, landvörslustöðvar, áningarstaði fyrir daggesti, tjaldsvæði, skála, vegi, gönguleiðir og upplýsinga- og fræðsluskilti.