Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Breskur stígagerðarhópur í Skaftafelli

Göngu- og hjólastígurinn sem liggur þvert yfir Morsárdal hefur verið lagfærður með aðstoð frá breskum stígagerðahópi.

13. maí 2024
Hópurinn við vinnu í Morsárdal.

Fimmtudaginn 2. maí mætti vaskur hópur frá Bretlandi í Skaftafell. Útivist er sameiginlegt áhugamál í hópnum og á miðvikudeginum gengu þau upp á Hvannadalshnjúk og skíðuðu niður. Það var þó enga þreytu að sjá á þeim þegar þau komu í Skaftafell þar sem þau höfðu boðið fram krafta sína í þjóðgarðinum. Sigrún Sigurgeirsdóttir sérfræðingur og Elvar Ingþórsson yfirlandvörður tóku á móti hópnum: sögðu frá þjóðgarðinum og fóru svo með þeim inn í Morsárdal.

Frábær hópur að loknum góðum vinnudegi.

Göngu- og hjólastígur liggur að hluta til yfir gamlan árfarveg Skeiðarár, þvert yfir Morsárdalinn. Stígurinn var óþarflega þröngur á þeim kafla og það kom sér virkilega vel að fá þennan öfluga hóp til liðs við okkur við að færa til grjót og breikka stíginn, ásamt því að fjarlægja stórgrýtið sem stóð upp úr stígnum og skapaði með því hættu. Tengiliður hópsins heitir Freya Williamsson og hún hefur tekið þátt í sambærilegum verkefnum á náttúruverndarsvæðum í Bretlandi og þannig kviknaði hugmyndin um að bjóða fram aðstoð hér. Við héldum að þetta væri hópur sem þekktist vel því þau unnu afar vel saman, en Freya sagði að þau hefðu flest verið að hittast í fyrsta skipti fyrir tveimur vikum í aðdraganda þessarar Íslandsferðar. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna og vinnuframlagið.

Stórgrýti hreinsað úr stígnum.