Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Hátíðisdagur á vestursvæði – Með landvörðum í Laka

Sunnudaginn 22. júlí bauð starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs íbúum Skaftárhrepps, vinum þeirra og vandamönnum, í heimsókn í Lakagíga. Markmiðin með heimboðinu voru að gefa heimamönnum tækifæri til að; sjá hvernig dagurinn gengur fyrir sig á Lakagígasvæðinu, skoða þá uppbyggingu sem garðurinn hefur staðið fyrir, fá fræðslu bæði um svæðið og starfsemina, njóta náttúrufegurðarinnar á hálendinu sínu og eiga skemmtilegan dag saman.

23. júlí 2018
Anna landvörður segir frá starfinu í Laka

Sunnudaginn 22. júlí bauð starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs íbúum Skaftárhrepps, vinum þeirra og vandamönnum, í heimsókn í Lakagíga. Markmiðin með heimboðinu voru að gefa heimamönnum tækifæri til að; sjá hvernig dagurinn gengur fyrir sig á Lakagígasvæðinu, skoða þá uppbyggingu sem garðurinn hefur staðið fyrir, fá fræðslu bæði um svæðið og starfsemina, njóta náttúrufegurðarinnar á hálendinu sínu og eiga skemmtilegan dag saman.

Ríflega 90 manns tóku heimboðinu fagnandi, voru afar skemmtilegir og fróðleiksfúsir gestir og gerðu þennan dag að sannkölluðum hátíðisdegi. Landverðir kynntu sig og starfið sitt og leiddu fræðslugöngur upp á Laka og um Eldborgarfarveginn. Dagurinn endaði svo í stærðargrillveislu við gangnamannaskálann í Blágiljum, þar sem fulltrúi fjallskilanefndar og fjallkóngurinn hjálpuðu okkur að gefa gestum okkar að borða eftir langan og strangan dag. Við viljum nota tækifærið hér og þakka þeim innilega fyrir samstarfið, sömuleiðis Sláturfélagi Suðurlands, sem gaf okkur kjötið á grillið. Það er ómetanlegt að eiga vini og velunnara nær og fjær og við erum þakklát og glöð fyrir að eiga marga slíka í baklandinu. Þannig styrkti byggðaþróunarverkefnið, Skaftárhreppur til framtíðar, daginn og gerði okkur kleift að bjóða upp á sætaferðir – og þegar sást að þátttakan fór fram úr okkar björtustu vonum brugðust Kynnisferðir skjótt við og lánuðu okkur aukarútuna sína í tilefni dagsins.Kærar þakkir enn og aftur öll sömul.

Vonandi hafa allir þátttakendur dagsins farið jafn glaðir í háttinn og við þetta kvöld. Nú er bara að fara að skipuleggja næsta sumar, en draumurinn er að hafa sérstaka dagskrá fyrir heimamenn á hverju ári einhvers staðar á hálendi vestursvæðis.

Takk fyrir komuna kæru gestir, hlökkum til að hitta ykkur aftur á fjöllum!