Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Hjólahelgi í Jökulsárgljúfrum aflýst

Hjólahelgi sem vera átti Jökulsárgljúfrum dagana 23. til 25. ágúst 2019 hefur verið aflýst,

20. ágúst 2019
Þessi myndarlega tjörn hefur myndast á göngustígnum vestan Hljóðakletta. Myndin tekin í hádeginu í dag, 20. ágúst.

Hjólahelgi sem vera átti Jökulsárgljúfrum dagana 23. til 25. ágúst 2019 hefur verið aflýst. Ástæðan er bleyta og eðja á göngustígum, en hvort tveggja leiðir til hættu á skemmdum á stígum og gróðri í jaðri stíganna. Jafnframt er aukin slysahætta þar sem stígar eru hálir og víða stórgrýtt á leiðinni.

Vætu- og kuldatíð hefur ríkt á norðausturhorni landsins undanfarnar vikur. Göngustígar í Jökulsárgljúfrum hafa smá saman orðið gegnsósa af vatni og á þeim stöðum þar sem vatn rennur ekki auðveldlega í burtu hafa myndast stórir pollar, jafnvel tjarnir. Auk þess hefur efni runnið úr stígum á nokkrum stöðum og þar brýn þörf á viðgerðum.

Þjóðgarðsvörður og landverðir hafa undanfarna daga fylgst með þróun mála og þrátt fyrir ágætis þurrk seinni part dags í gær og í morgun er einsýnt að stígarnir verða ekki tilbúnir fyrir umferð reiðhjóla um komandi helgi. Né heldur er hægt að segja til um ástand þeirra það sem eftir lifir sumars/hausts. Hjólahelginni er því aflýst í ár, en ákvörðun um framhaldið verður tekin fyrir næsta sumar.