Hræðsluganga með landvörðum
Þau voru hugrökk, íbúarnir 38 á Höfn sem tókust á við myrkragöngu með landvörðum síðasta föstudag, vopnuð vasaljósi og heitu kakói. Gengið var af stað í ljósaskiptunum þegar von var á að hinar ýmsu kynjaverur og framliðnar sálir færu á stjá.
Í rústum verbúðarinnar á Syðri-Ægissíðu. Mynd: Steinunn Hödd Harðardóttir.
„Markmið með svona göngu er að fá fólk með okkur út í myrkrið og rifja upp sögur fyrri kynslóða, þegar lýsing og aðstæður voru allt öðruvísi en þær eru í dag, og ímyndunaraflið skapaði hin ólíklegustu kvikindi og sögur úr óvæntum hljóðum eða skugga á vegg. Eins til að vekja okkur til umhugsunar um að ótti er bara ósköp eðlilegt tilfinning og að við höfum ýmsar leiðir til að takast á við hana“, segir Guðrún Stefanía, landvörður á Höfn.
Landverðirnir Helga Árnadóttir og Guðrún Stefanía V. Ingólfsdóttir gengu með þátttakendum undir dansandi norðurljósum að rústum gömlu verbúðarinnar á Syðri-Ægissíðu. Sagðar voru m.a. sögur af nautinu í Baulutjörn og Selamóðurinni ógurlegu. Í lok ferðar var ævintýrahrollurinn kveðinn niður með heitu kakó og hlýju spjalli í rústunum.
Helga og Stefanía þakka kærlega fyrir komuna með von um að á komandi ári verði enn nóg af kynlegum kvistum á ferðinni.
Fleiri myndir úr ferðinni má nálgast á Facebook síðu Vatnajökulsþjóðgarðs og á Instagram.