Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Hrafnhildur og Steinunn Hödd ráðnar þjóðgarðsverðir

Þær Hrafnhildur Ævarsdóttir og Steinunn Hödd Harðardóttir hafa verið ráðnar sem þjóðgarðsverðir á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.Fyrir var ein staða þjóðgarðsvarðar á svæðinu en í lögum þjóðgarðsins var heimild til ráðningar tveggja

21. september 2021
Hrafnhildur Ævarsdóttir (t.v.) og Steinunn Hödd Harðarsdóttir (t.h.) að störfum við fuglamerkingar.

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs samþykkti tillögu svæðisráðs suðursvæðis á fundi þann 21. júní síðastliðinn um að auglýsa störf tveggja þjóðgarðsvarða fyrir svæðið, öðrum með aðsetur í Skaftafelli og hinn með aðsetur á Höfn. Alls bárust 11 umsóknir og var niðurstaðan að ráða Hrafnhildi Ævarsdóttur til að gegna stöðu þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli og Steinunni Hödd til að gegna stöðu þjóðgarðsvarðar á Höfn.

Helga Árnadóttir var áður þjóðgarðsvörður á suðursvæði. Helga óskaði eftir að láta af starfi þjóðgarðsvarðar í vor og mun taka við öðrum verkefnum hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Þjóðgarðurinn þakkar Helgu kærlega fyrir farsæl störf sem þjóðgarðsvörður og fagnar því að njóta áfram mikillar þekkingar og reynslu hennar við önnur störf hjá Vatnajökulsþjóðgarði.

Hrafnhildur Ævarsdóttir hefur starfað hjá Vatnajökulsþjóðgarði frá árinu 2011 þegar hún hóf störf sem landvörður í Skaftafelli. Árið 2016 tók hún við stöðu sérfræðings á svæðinu og hefur frá árinu 2018 gengt starfi aðstoðarmanns þjóðgarðsvarðar á suðursvæði. Hrafnhildur er náttúrufræðikennari, með meistarapróf í líffræði og stundar nú meistaranám í umhverfisstjórnun. Hennar helstu áhugamál eru fjallamennska og útivist. Hrafnhildur er formaður Björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum og hún er búsett í Skaftafelli.

Steinunn Hödd Harðardóttir hóf störf sem sérfræðingur hjá Vatnajökulsþjóðgarði árið 2017. Hún hefur gegnt hlutverki aðstoðarmanns þjóðgarðsvarðar frá árinu 2019 og hefur verið starfandi þjóðgarðsvörður á suðursvæði frá því í október 2020. Steinunn Hödd er líffræðingur, með meistarapróf í náttúrustjórnun og stundar nú diplómanám í opinberri stjórnsýslu. Hennar helstu áhugamál eru útivist, hlaup og eldamennska. Steinunn er gift Finni Smára Torfasyni og eiga þau tvö börn. Þau eru búsett á Höfn.

Hrafnhildur og Steinunn Hödd munu taka formlega við störfunum þann 1. október næstkomandi og óskar Vatnajökulsþjóðgarður þeim hjartanlega til hamingju.