Hvað gera landverðir: Utanvegaakstur og forvarnarstarf
Landverðir verja miklum tíma í forvarnarstarf fyrir utanvegaakstur með því að upplýsa og fræða gesti um afleiðingar hans en einnig við að lagfæra skemmdir af völdum hans og skrá öll tilfelli.
Á hverju ári koma upp alvarleg tilfelli af utanvegaakstri innan Vatnajökulsþjóðgarðs, líkt og gerðist um miðjan ágúst á Sprengisandi. Þar olli akstur utan vega djúpum og ljótum förum í viðkvæmri malarkápunni. Þetta var aðeins eitt tilvik af mörgum og fer drjúgur tími landvarða í tilraunir til að afmá ummerki eftir slíkan akstur, sem í sumum tilfellum er ómögulegt. Förin raska ásýnd náttúrunnar og auka líkurnar á að aðrir leiki þetta eftir. Utanvegaakstur er því mikið vandamál á Íslandi, bæði á hálendi og láglendi. Hvert atvik er skráð, þótt gerandi náist ekki. Skráningin getur hjálpað til við að finna gerendur og í þeim tilfellum er skýrsla send til lögreglu sem metur hvort tilefni sé til kæru. En skráningin hefur einnig þann tilgang að halda utan um umfang vandamálsins, fylgjast með breytingum milli ára og meta hvort mismunandi nálganir eða aðgerðir séu að skila árangri. Hlutverk landvarða er þó aðallega að vinna forvarnarstarf með því að fræða og upplýsa gesti þjóðgarða og friðlýstra svæða um skaðsemi og afleiðingar utanvegaaksturs.
Af hverju er utanvegaakstur alvarlegur?
Jarðvegur á Íslandi er eldfjallajarðvegur sem er einkar laus í sér. Hjól vélknúinna ökutækja mynda því oft djúp för í yfirborðið, hvort sem yfirborðið er gróið eða ekki, en einnig þjappa þau niður jarðveginn. Förin skapa farveg fyrir aukið vatns- og vindrof sem ýtir þar af leiðandi undir jarðvegsrof. Víða er svo kölluð malarkápa á hálendinu. Þar er viðkvæmt undirlagið varið með kápu af stærri steinum. Þegar kápan er rofin er greið leið fyrir roföflin til að dýpka sárin. För í malarkápu lagast ekki með sandfoki og þótt þau séu lagfærð af landvörðum getur það tekið þau mörg ár að hverfa alveg og munu jafnvel sjást um ókomna tíð. Frostverkun og snjóþyngsli hjálpa vissulega einhverjum förum að minnka yfir köldustu mánuðina, en það dugar þó ekki alltaf til. Vaxtartími gróðurs er stuttur á Íslandi, sérstaklega á hálendinu, og gróðurskemmdir geta verið áratugi að jafna sig. Skemmdir á mosa er ómögulegt að laga að fullu þar sem mosinn deyr við traðkið og skilur eftir sig ljót sár sem eykur líkur á jarðvegsrofi.
Förin valda ekki bara skemmdum á gróðri og undirlaginu, heldur raska þau einnig ásýnd landsins og veita slæmt fordæmi fyrir frekari utanvegarakstri. Það eru fjölmörg dæmi um að gestir elti för í blindni án þess að velta því fyrir sér að verið sé að keyra utanvegar. Þess vegna er mikilvægt að ná að lagfæra förin sem fyrst og loka fyrir slóða.
Hvernig komum við í veg fyrir utanvegaakstur?
Fræðsla og upplýsingagjöf er mikilvægasta forvarnarstarfið til að koma í veg fyrir utanvegaakstur. Vegalandvarsla er aðal verkfærið í baráttunni gegn utanvegaakstri en fræðslan fer einnig fram í gestastofum friðlýstra svæða og þjóðgarða sem og á öðrum stöðum þar sem landverðir hitta gesti. Upplýsingaskilti eru einnig víða, sérstaklega við upphaf á hálendisvegum.
Í vegalandvörslu eru landverðir sýnilegir úti á vegum á hálendinu og leggja sig fram um að ræða við alla þá sem koma inn á svæðin stóran hluta dags og fræða vegfarendur um aðstæður á svæðinu, náttúruna og mikilvægi þess að koma fram við hana af virðingu, meðal annars með því að aka ekki utan vega. Gestum er gefin einblöðungur þar sem útskýrt er hverjar afleiðingarnar eru og leiðbeiningar um hvað telst til utanvegaaksturs. Óvanir ökumenn átta sig til dæmis ekki á því að það að sneiða fram hjá pollum og holum flokkast sem utanvegaakstur og veldur því að vegurinn breikkar. Slæmt ástand á vegi réttlætir aldrei akstur utan vegar. Margir verða einnig óöruggir þegar þeir mæta bílum, vilja víkja til að vera ekki fyrir og fara því út af veginum. Bílarnir skilja þá för eftir sig og fyrr en varir kemur næsti bíll og stoppar á sama stað.
Almenn vitneskja meðal Íslendinga um afleiðingar utanvegaaksturs hefur aukist mikið á síðustu árum. Átakið ,,Ökum slóðann’’ er framlag Ferðaklúbbsins 4×4 til að sporna við akstri utan slóða en það hefur verið eitt af þeirra helstu baráttumálum gegnum tíðina. Prentuð hafa verið út plaköt, sambærileg þeim sem landverðir nota, sem hefur verið dreift víða og límmiðar til að hafa í bílum. Vegfarendur eru ávallt hvattir til þess að leita sér upplýsinga um vegi við hæfi, hvort heldur leitast er eftir ævintýrum í akstri eða sem mestum þægindum. Verðið þið vitni að akstri utan vega hvetjum við ykkur eindregið til þess að tilkynna það til lögreglu eða landvarða. Munum líka að vera fyrirmyndir þegar við erum að ferðast og verum óhrædd að tala við ferðamenn og leiðbeina, því margir hreinlega átta sig ekki á að utanvegaakstur er bannaður.
Hvernig lögum við utanvegaakstur?
Eins og áður sagði er mikilvægt að lagfæra förin sem fyrst til að aðrir fylgi ekki eftir. Það er yfirleitt gert með því að raka eða sópa yfir förin, ef undirlagið leyfir. Ef förin eru í gróðri þarf stundum að stinga þau upp og róta í þeim til að loft komist í jarðveginn sem hefur þjappast saman. Þetta flýtir fyrir því að förin jafni sig þótt þá muni sjást lengi. Í verstu tilfellunum þarf að fara í svokallaða gróðurígræðslu þar sem gróður er fluttur frá öðrum svæðum og grætt í sárin. Mikilvægast er að reyna að jafna út kantana til að vatn leiti ekki í dældirnar. Lagfæringar á förunum styttir til muna þann tíma sem förin eru sýnileg, og er mikilvægt að ná því fyrir veturinn því frostið hjálpar mikið til.
Starf landvarða er fjölbreytt og fræðsla og upplýsingagjöf um utanvegaakstur verður alltaf stór hluti af því. Hins vegar er það von okkar að tíminn sem að landverðir eyða í að afmá för í viðkvæmri náttúru Íslands verði alltaf minni með hverju árinu þar sem vitundarvakning í samfélaginu er alltaf að verða meiri og þar með berst boðskapurinn víðar.
Nánari upplýsingar um akstur utan vega má finna á:
Akstur - Vatnajökulsþjóðgarður (vatnajokulsthjodgardur.is)
Umhverfisstofnun | Akstur utan vega (ust.is).