Í minningu Skarphéðins G. Þórissonar
Skarphéðinn G. Þórisson, líffræðingur, fræðimaður, áður fulltrúi í svæðisráði og náttúruverndarmaður mikill er genginn á braut.
Sunnudaginn 9. júlí sl. féll Skarphéðinn G. Þórisson frá, í hörmulegu slysi við vísindastörf. Allt frá stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur starfsfólk þjóðgarðsins notið góðs af þekkingu Skarphéðins og brennandi áhuga hans á miðlun hennar í máli og myndum. Skarphéðinn tók þátt í undirbúningi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og sat í svæðisráði austursvæðis f.h. náttúruverndarsamtaka árin 2008-2012. Á upphafs árum þjóðgarðsins mæddi mikið á svæðisráðunum við frumgerð Stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Það var á þeim tíma ómetanlegt að hafa ötula liðsmenn með afburða þekkingu á landinu, skilning á náttúrulegum ferlum og skarpa sýn á þau gildi sem hornsteinar voru lagðir að í frumbernsku þjóðgarðsins.
Skarphéðinn var líffræðingur að mennt og hafði sérhæft sig í lífsháttum hreindýra. Þekking hans var hins vegar mun víðfeðmari og tók til náttúru Íslands og ekki síst Austurlands. Hann var alltaf tilbúinn að miðla fróðleik um hvaðeina er varðaði fugla, gróður, spendýr, skordýr, landslag, jarðfræði og hreindýrin hans kæru. Einnig var hann ötull við að benda á sagnir og vísbendingar um menningarminjar innan þjóðgarðsins.
Skarphéðinn var leiðandi við vinnslu sýninga og gerð fræðsluefnis, kom að hönnun minjagripa, yfirlestri á texta og veitti aðstoð við faglega rýni. Síðast en ekki síst var hann óspar á að lána ljósmyndir sínar til nota í hverskyns fræðslu- og kynningarefni þjóðgarðsins. Áhugi Skarphéðins og elja á náttúrunni og vöktun hennar smitaðist til starfsfólksins og oft hvað við: „Varstu búin að spyrja Skarphéðinn?“ eða „varstu búin að láta Skarphéðinn vita af þessu?“. Hann setti mark sitt á allt starfsfólk þjóðgarðsins og þar með starfsemi þjóðgarðsins og gesti.
Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs þakkar óeigingjarnt starf Skarphéðins í þágu náttúrunnar og minnist hans með hlýju og virðingu. Stórt skarð er höggvið í vísindasamfélagið. Megi minningin um bóngóðan náttúrufræðing og ötulan náttúruverndarmann varðveitast til framtíðar hjá starfsfólki og í sögu þjóðgarðsins.
Starfsfólk vottar öllum þeim sem eiga um sárt að binda í kjölfar slyssins innilega samúð sína. Við sendum fjölskyldu, vinum og samstarfsfólki Skarphéðins á Náttúrustofu Austurlands innilegar samúðarkveðjur.
Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs fyrr og nú.