Ingibjörg Halldórsdóttir sett tímabundið í embætti framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs
Í liðinni viku tilkynnti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra að aðsetur og lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs verði flutt til Hafnar í Hornafirði næsta haust. Ákvörðunin var tekin í samráði við stjórn þjóðgarðsins og verður kynnt á næstunni á Alþingi. Einnig var upplýst að Magnús Guðmundsson, núverandi framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, muni flytjast í starf sérfræðings í umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytinu þann 1. september nk.
Vegna framangreindra breytinga hefur Ingibjörg Halldórsdóttir staðgengill framkvæmdastjóra og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Vatnajökulsþjóðgarðs verið sett í embætti framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs frá sama tíma þar til skipað hefur verið í embættið. Ingibjörg er lögfræðingur að mennt og hefur, auk starfa sinna hjá Vatnajökulsþjóðgarði, meðal annars starfað í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, hjá Mannvirkjastofnun, Háskóla Íslands og sem sjálfstætt starfandi lögmaður. Ingibjörg hefur mikla reynslu af störfum í stjórnsýslunni þar sem hún hefur komið að ýmsum málum á sviði umhverfis- og skipulagsmála bæði sem starfsmaður í stjórnsýslunni og ráðgjafi.