Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Íshellaferðir og jöklagöngur - ákvörðun um afturköllun auglýsingar og framlengingu samninga

26. september 2024

Núgildandi samningar um íshellaferðir og jöklagöngur 2023-2024 gilda til 30. september næstkomandi. Þjóðgarðurinn hefur undanfarið rýnt málefni íshellaferða og jöklagangna með tilliti til fyrirkomulags og samningsskilmála, svo og yfirstandandi umsóknarferli vegna nýs tímabils. Málið hefur meðal annars fengið reglubundna rýni á vettvangi svæðisráðs suðursvæðis og í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.

Það er niðurstaða svæðisráðs og stjórnar að draga til baka þá auglýsingu sem nú hefur verið opinber síðan í maí og framlengja þá samninga sem nú eru í gildi til 30. október næstkomandi en jafnframt er óheimilt að fara í íshella á því tímabili. Gert er ráð fyrir því að auglýsa nýja samninga 14. október næstkomandi og að nýir samningar taki gildi 1. nóvember næstkomandi.

Í ljósi misskilnings sem gætt hefur, meðal annars í kjölfar tölvupósts sem þjóðgarðurinn sendi samningshöfum síðastliðinn föstudag, er hér með áréttað að allar ísmyndanir sem eru á einhvern hátt undir ísþaki, yfirhangandi/hallandi eða slútta eru mjög varasamar á þessum árstíma. Þar er meðal annars átt við ísveggi og svelgi, ísrásir, íshella og ísboga.

Ef ísveggir eru ekki slútandi og ísinn þéttur (til dæmis í svelgjum) og jöklaganga liggur um slíkt svæði þarf eftir sem áður ávallt að fara fram mat leiðsögumanna sem til þess hafa menntun (“Jökla 3” eða sambærilegt) og reynslu til að meta viðkomandi aðstæður til að tryggja öryggi gesta.

Að auki ítrekar Vatnajökulsþjóðgarður þau skilyrði sem sett hafa verið varðandi menntun leiðsögumanna, fjölda gesta per leiðsögumann (og skráningu þeirra) og viðeigandi búnað samanber 3. gr. samnings um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði.