Ísland kjörið í framkvæmdastjórn UNESCO
Ísland var kosið í framkvæmdastjórn Mennta-, vísinda og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) þann 17. nóvember síðastliðinn með yfirgnæfandi stuðningi á aðalráðstefnu stofnunarinnar sem fór fram í París.
Innan Vesturlandahópsins voru Austurríki og Tyrkland einnig í framboði. Ísland hlaut flest atkvæði í kosningunni, eða 168 en 178 ríki greiddu atkvæði.
Ríkisstjórnin tók ákvörðun um framboðið árið 2018 og hefur fastanefnd Íslands hjá UNESCO, utanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið sem og íslenska UNESCO-landsnefndin unnið síðustu ár að því að efla störf Íslands innan stofnunarinnar. Í framkvæmdastjórn sitja 58 ríki og er almennt mikil samkeppni meðal hinna 193 aðildarríkja UNESCO um sæti í framkvæmdastjórn.
UNESCO er sérstofnun SÞ sem hefur það að markmiði að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu í málaflokkum stofnunarinnar. UNESCO ber m.a. höfuðábyrgð innan SÞ-kerfisins á innleiðingu heimsmarkmiðs fjögur um menntun og er sú stofnun SÞ sem hefur sérstakt umboð til að efla tjáningar- og fjölmiðlafrelsi. Þá sinnir stofnunin margvíslegum verkefnum með áherslu á vísindi, menningu og menningararf og heldur m.a. úti hinni þekktu Heimsminjaskrá, hvar Vatnajökulsþjóðgarður var skráður árið 2019.
Framboð Íslands naut stuðnings Norðurlanda sem skipst hafa á um setu í stjórninni frá upphafi. Á stjórnartímabilinu eru fulltrúar Íslands ábyrgir fyrir samhæfingu og upplýsingamiðlun á meðal norrænna ráðuneyta og fastanefnda vegna málefnastarfs innan UNESCO.
Sjá nánar í fréttatilkynningu á vef utanríkisráðuneytis.