Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Jákvæð rekstrarniðurstaða 2020 upp á 170 milljónir króna

Ársreikningur Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir árið 2020 sýnir jákvæða niðurstöðu upp á um 170 mkr.

26. maí 2021

Að frádregnum halla frá árinu 2017 er höfuðstóll þjóðgarðsins nú orðinn jákvæður gagnvart ríkissjóði um 21 mkr sem er afar jákvætt. Stjórnendum og starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs ber að þakka sérstaklega fyrir þennan góða árangur sem byggist á faglegri vinnu og að gætt hefur verið aðhalds og ráðvendi í starfi þjóðgarðsins.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2020 var heildarrekstrarkostnaður Vatnajökulsþjóðgarðs um 862,1 mkr. Til samanburðar þá var heildarrekstrarkostnaður vegna ársins 2019, 896,3 mkr. Rekstrarkostnaður lækkaði því milli ára um 34,2 mkr. eða um 3,8%. Megin skýringin þess er aðhald, skipulagsbreytingar og hagræðing.

Hér má nálgast undirritaðan ársreikning Vatnajökulsþjóðgarðs.

Almennt einkenndist árið 2020 hjá Vatnajökulsþjóðgarði af endurskipulagningu, styrkingu innviða og fjölgun fastra sérhæfðra starfsmanna. Umskiptin til hins betra hafa verið mikil undanfarin þrjú ár sem kemur ekki síst fram í jákvæðri niðurstöðu ársreiknings Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir árið 2020.

Tekjur á árinu 2020

Tekjur þjóðgarðsins koma annars vegar frá fjárveitingum í fjárlögum og hins vegar vegna ýmissa framlaga, sértekna og styrkja. Rekstur stofnunarinnar er afar háður sértekjum en hefðbundnar fjárveitingar á fjárlögum hvers árs ná að greiða launakostnað en nær allur annar rekstur greiðist af sértekjum.

Heildartekjur þjóðgarðsins árið 2020 voru 1.033.889 mkr. króna en árið 2019 voru þær 932.858 mkr. Lækkun sölu og þjónustutekna milli ára var 190 mkr. sem skýrist af mikilli fækkun ferðamanna vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Þjóðgarðurinn fékk um 130 mkr. sem sérstakt framlag vegna vegna lækkaðra sértekna frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu auk um 70 mkr. á fjáraukalögum 2020 til að styrkja almennan rekstur og að greiða niður uppsafnaðan halla fyrri ára.

Útgjöld á árinu 2020

Launakostnaður jókst um 40 mkr. og fór úr 527,5 mkr. á árinu 2019 í 567,1 mkr. á árinu 2020 eða um 7 % og skýrist sú hækkun aðallega af launabreytingum í kjarasamningum og lítilsháttar fjölgun stöðugilda.

Ferða og fundakostnaður lækkaði um 10,2 mkr. á milli áranna 2019 og 2020, fór úr 38,7 mkr. í 28,4 mkr.

Rekstrarvörur lækkuðu um 5,8 milljónir króna á milli áranna 2019 og 2020 og fór úr 24,4 mkr. í 18,6 mkr.

Aðkeypt þjónusta lækkaði um 17,6 mkr. á milli áranna 2019 og 2020, fór úr í 96,8 mkr. í 79,2 mkr.

Húsnæðisliður lækkað um 11,5 mkr. á milli áranna 2019 og 2020 , fór úr 86,1 mkr. í 74,6 mkr.

Bifreiða og vélaliður stóð í stað, var 16,9 mkr. árið 2019 og 16,8 mkr. árið 2020

Þegar allt er talið, birgðabreytingar o.fl.. er lækkun almenns rekstrarkostnaður um 95 mkr. á milli áranna 2019 og 2020, fór úr 327,7 mkr. í 232,3 mkr.