Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Jökulsárlón - Eitt af Vörðum Íslands

Jökulsárlón, ásamt Gulfossi, Geysi og Þingvöllum, eru fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður.

23. apríl 2021

Þann 21. apríl kynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, nýja heildstæða nálgun áfangastaðastjórnunar: Vörðu.

Með Vörðu verða lögð drög að fyrirmyndaráfangastöðum og verða Vörður áfangastaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.

Jökulsárlón og Breiðamerkusandur urðu hluti af Vatnajökulsþjóðgarði árið 2017. Jökulsárlón liggur við þjóðveg 1 og er aðgengilegt allt árið um kring. Á árinu 2019 heimsóttu tæp milljón ferðamanna svæðið. Sérstaða landsvæðisins er mjög mikil. Það er mótað af framgangi og hopun jökla og einkennist af sérstæðum jökulöldum. Ein helsta náttúruperla svæðisins er Jökulsárlón sem er stærsta og þekktasta jaðarlón á landinu. Mikil þörf er á uppbyggingu á svæðinu, til verndunar náttúru og til að geta betur þjónustað gesti og notendur þess. Nýtt deiliskipulag tók gildi árið 2020 og Stjórnunar- og verndaráætlun er í umsagnarferli. Gildandi deiliskipulag og komandi stjórnunar- og verndaráætlun eru mikilvæg stjórntæki og undirstaða komandi uppbyggingar.

Fyrstu verkefnin sem ráðist verður í við Jökulsárlón í tengslum við Vörðu eru þolmarkarannsóknir, uppbygging akstursleiða, göngustíga og áningarstaða og undirbúningur á tilkomu rafhleðslustöðva.

Vatnajökulsþjóðgarður er einstaklega stoltur og þakklátur yfir því að Jökulsárlón hafi hlotið tilnefningu í að verða einn af fyrirmyndaráfangastöðum Íslands. Við hlökkum til áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu, náttúrunni og samfélaginu til heilla.