Jökulsárlón í Vatnajökulsþjóðgarði
Í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum var umfjöllun um málefni Jökulsárlóns og áhuga fyrirtækja á að fá að hefja siglingar á svæðinu.
Kríur við Jökulsárlón.
Vatnajökulsþjóðgarður fagna umræðu um framtíð þessarar dýrmætu náttúruperlu sem gerð hefur verið að þjóðgarði vegna sérstöðu sinnar. Mikilvægt er að hafa í huga að um takmörkuð gæði er að ræða og verklag og reglur um aðgengi ferðaþjónustuaðila að lóninu þarf að miðast við þann veruleika. Úthlutun leyfa þurfa því að fylgja skýru ferli þar sem allir sitja við sama borð.
Hér verður gerð stutt grein fyrir forsögu málsins og hver staða mála er innan þjóðgarðsins varðandi framtíðarstefnumörkun fyrir Jökulsárlón. Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Íslenska ríkið festi kaup á jörðinni Felli í Suðursveit snemma árs 2017. Síðar það sama ár voru jörðin og aðliggjandi þjóðlendur á Breiðamerkursandi friðlýst sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Við friðlýsingu svæðisins fékk Vatnajökulsþjóðgarður ærið verkefni í hendurnar, enda Jökulsárlón einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.
Frá upphafi lá fyrir að stefnumótun og ákvarðanataka um uppbyggingu á svæðinu væri langtímaverkefni. Innviðir svæðisins voru við friðlýsinguna nánast engir fyrir utan þá aðstöðu sem rekstraraðilar siglinga höfðu komið sér upp samkvæmt samningum við fyrri eigendur Fells. Þeir samningar eru enn í gildi og rennur sá þeirra sem lengstan gildistíma hefur út í árslok 2024.
Nýtt deiliskipulag fyrir svæðið tók gildi árið 2020 en það gerir ráð fyrir færslu aðalathafnasvæðisins frá lóninu til að tryggja að manngert umhverfi trufli upplifun gesta sem minnst. Þá var stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand staðfest af ráðherra á síðasta ári að undangengnu ítarlegu samráði, m.a. við fyrirtæki í ferðaþjónustu á svæðinu. Samhliða þessari stefnumótun hefur verið ráðist í ýmsa uppbyggingu á svæðinu en henni er þó hvergi nærri lokið. Meðal framkvæmda sem eru hafnar eða í undirbúningi er malbikun bílastæða, fráveita, hleðslustöðvar, salerni, göngustígar, fræðsluskilti o.fl.
Ítarlegra gagna var aflað um náttúrufar svæðisins í tengslum við gerð deiliskipulags og stjórnunar- og verndaráætlunar. Þá er nú unnið að öflun gagna um þolmörk svæðisins og munu niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir í lok þessa árs. Öflun slíkra gagna er mikilvæg forsenda ákvarðanatöku um umfang rekstrar á svæðinu og innviðauppbyggingu þannig að ekki verði gengið á þolmörk náttúru og til að tryggja góða upplifun gesta.
Möguleikar Vatnajökulsþjóðgarðs til að afla sértekna á svæðinu til að standa undir kostnaði við uppbyggingu og rekstur felast annars vegar í töku þjónustugjalda fyrir veitta þjónustu og hins vegar í gjaldtöku af fyrirtækjum sem fá leyfi til rekstrar á svæðinu. Á síðasta ári tóku gildi ný lög um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni. Markmið laganna er að stuðla að hagkvæmri nýtingu, sjálfbærni, aðgengi og uppbyggingu innviða og atvinnulífs á landi í eigu ríkisins að teknu tilliti til jafnræðis, hlutlægni, gagnsæis og samkeppnissjónarmiða. Samkvæmt lögunum er skylt að auglýsa sérleyfis- og rekstrarleyfissamninga sem ná tilteknum fjárhæðum eða eru til lengri tíma en þriggja ára.
Nokkur fyrirtæki eru með tímabundin leyfi til að hafa aðstöðu og starfsemi á aðalbílastæðinu við Jökulsárlón. Eins og fyrr segir var starfsemi fyrirtækja sem bjóða upp á siglingar á lóninu hafin áður en landið varð þjóðgarður og eru samningar þeirra við fyrri landeigendur enn í gildi. Leyfi til rekstrar matarvagna á svæðinu voru auglýst til úthlutunar vorið 2022 og fengu þrír slíkir leyfi til rekstrar í tvö ár. Athafnasvæðið við Jökulsárlón er lítið, sem setur því skorður hversu mörgum aðilum er hægt að veita aðstöðu. Þá eru nauðsynlegar veitur ekki til staðar.
Vatnajökulsþjóðgarður er meðvitaður um þá miklu hagsmuni sem tengjast rekstri á Jökulsárlóni og hefur leitast við að upplýsa eftir bestu getu stöðu undirbúnings á Jökulsárlóni. Í því skyni var m.a. tekin saman stöðuskýrsla fyrr á þessu ári og birt á vef þjóðgarðsins auk þess sem hún var send á helstu ferðaþjónustufyrirtæki svæðisins. Fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu á svæðinu hafa ítrekað verið upplýst um að úthlutun leyfa til rekstrar verður auglýst í almennri auglýsingu þar sem öllum áhugasömum gefst tækifæri til að taka þátt. Á þessari stundu er málið í undirbúningi og ekki opið fyrir umsóknir.
Í atvinnustefnu þjóðgarðsins er lögð á það áhersla að sanngjarn tímafrestur sé veittur á öllum ákvörðunum þjóðgarðsins er varða rekstur fyrirtækja sem nýta sér gæði þjóðgarðsins. Því leggur þjóðgarðurinn áherslu á að upplýst verði um tímasetningar úthlutana með góðum fyrirvara. Markmiðið er að fyrir liggi tímasett áætlun um næstu skref í uppbyggingu svæðisins og hvenær áformað verði að ný leyfi verði auglýst til úthlutunar. Þar sem um stefnumarkandi ákvarðanir er að ræða þarf þó bæði svæðisráð suðursvæðis og stjórn þjóðgarðsins að fjalla um og taka afstöðu til mála á grundvelli þeirrar vinnu sem þegar hefur farið fram.
Ingibjörg Halldórsdóttir settur framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs
Steinunn Hödd Harðardóttir þjóðgarðsvörður á suðursvæði