Jökulsporðar hopuðu árið 2020 og landið rís á Höfn í Hornafirði
Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver helsta afleiðing og skýrasti vitnisburður um hlýnandi loftslag hérlendis.
Í nýútgefnu fréttabréfi verkefnisins Hörfandi jöklar kemur fram að flatarmál íslenskra jökla hefur minnkað um u.þ.b. 800 km² síðan árið 2000 og meira en 2200 km² frá lokum 19. aldar þegar jöklarnir náðu mestu útbreiðslu síðan land byggðist. Til samanburðar má benda á að Stór-Reykjavíkursvæðið þekur um 1.000 km2. Síðustu árin hefur heildarflatarmál jökla minnkað um u.þ.b. 40 km² árlega að meðaltali, eða sem samsvarar flatarmáli Mývatns. Verkefnið Hörfandi jöklar er samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands, Jöklahóps Jarðvísindastofnunar Háskólans, Náttúrustofu Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarðs, fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Á árinu 2020 hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra en nokkrir brattir skriðjöklar gengu svolítið fram. Af þeim jöklum sem mældir eru af sjálfboðaliðum Jöklarannsóknafélags Íslands hopaði Breiðamerkurjökull mest þar sem kelfir af honum í Jökulsárlón, milli 100 og 250 m árið 2020. Einnig brotnaði af Heinabergsjökli í lón við jaðarinn og styttist sporðurinn við það um rúmlega 100 m.
Massatap jöklanna veldur hröðu landrisi vegna þess hve seigja möttulefnisins undir Íslandi er lítil. Við Höfn í Hornafirði er landris nú um 12–15 mm á ári og hefur hraði þess tekið talsverðum breytingum á undanförnum tveimur áratugum vegna breytileika í afkomu jökulsins. Land rís enn hraðar við vesturjaðar Vatnajökuls þar sem rishraðinn mælist allt að 40 mm á ári.
Gögn um útbreiðslu jöklanna á mismunandi tímum og afkomumælingar síðustu áratuga má nota til þess að greina breytingar á rúmmáli jöklanna síðan þeir voru nærri sögulegu hámarki á síðari hluta 19. aldar. Jöklarnir eru nú um 3400 km³ að rúmmáli og hafa tapað um 600 km³ á þessu tímabili. Rýrnunin var hröðust á árunum 1930–1950 og eftir 1995. Nánar má fræðast um samband jökla og loftslags á fræðsluvef þjóðgarðsins um jökla- og loftslagsbreytingar: Hörfandi jöklar.