Kári Kristjánsson hlýtur Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti á degi íslenskrar náttúru
Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs óskar Kára Kristjánssyni landverði og þúsundþjalasmið þjóðgarðsins innilega til hamingju með Náttúruviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Kári tileinkaði öllum landvörðum og mikilvægu fræðslustarfi þeirra viðurkenninguna.
Í umsögn ráðherra vegna Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti kemur m.a. fram að Kári, sem stundum hafi verið talað um sem landvörð Íslands, hafi sinnt náttúruvernd af miklum áhuga og eldmóði undanfarna áratugi. Hann hafi verið baráttumaður í stórum náttúruverndarmálum sem smáum og sé laginn við að smita aðra af virðingu fyrir landinu með orðum sínum og gjörðum. „Djúpt innsæi og skilningur á náttúrunni, menningu og sögu einkennir Kára í störfum hans og hann er einstökum hæfileikum gæddur til að miðla þekkingu sinni til annarra. “ segir í umsögninni. „Kári hefur þróað aðferð til að flytja til gamburmosaþembur og koma þeim fyrir þar sem álagssár og villustígar hafa myndast og þannig náð að loka ljótum sárum, einkum í kringum Lakagíga, einu viðkvæmasta svæði íslenskrar náttúru. Þá er gestamóttaka sem stunduð er af landvörðum í Lakagígum úthugsað hugarfóstur Kára og aðferðarfræði sem smám saman er að breiðast út um allt land þar sem tekið er á móti hverjum einasta gesti og hann upplýstur um undur svæðisins, umgengnisreglur og verndargildi.“