Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Landvarðanámskeið 2022

Umhverfisstofnun auglýsir nú landvarðanámskeið 2022. Þátttaka í námskeiðinu veitir landvarðaréttindi en landverðir starfa víðsvegar um landið á friðlýstum svæðum.

7. desember 2021
Landvörður við störf. Mynd: Maríanna Óskarsdóttir

Um námskeiðið

Námskeiðið er 110 klst. og eru megin umfjöllunarefnin eftirfarandi:

  • Náttúruvernd og stjórnsýsla náttúruverndarmála
  • Verðmæti friðlýstra svæða, náttúra, menning og saga
  • Gestir friðlýstra svæða
  • Mannleg samskipti
  • Náttúrutúlkun, fræðsla á friðlýstum svæðum, bóklegt og verklegar æfingar
  • Vinnustaðir landvarða
  • Öryggisfræðsla

Námskeiðið hefst 3. febrúar og lýkur 27. febrúar. Kennt er um helgar og tvö virk kvöld í hverri viku yfir fjögurra vikna tímabil. Námskeiðið er fjarkennt á Teams þrjár helgar en ein staðlota verður í náminu og stendur hún frá miðvikudags eftirmiðdegi og fram á sunnudag. Staðlota er vettvangsferð haldin úti á landi og er skyldumæting í hana.

Námskeiðsgjaldið 2022 er kr. 155.000,- og er allur kostnaður við vettvangsferðina innifalin í því verði.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar hér og fer skráning jafnframt fram þar. Skráning hefst 3. janúar klukkan 10:00 og stendur til 11. janúar 2022. Nánari upplýsingar veitir Kristín Ósk Jónasdóttir hjá Umhverfisstofnun, [email protected].

Landvarsla í Vatnajökulsþjóðgarði

Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfar samheldinn hópur starfsmanna með fjölbreytta reynslu, sem sinnir margvíslegum verkefnum tengdum náttúruvernd og þjónustu við gesti þjóðgarðsins. Að staðaldri eru tæplega 30 manns við störf hjá þjóðgarðinum en yfir sumartímann fer starfsmannafjöldi yfir 100. Starfsmannafjöldinn er yfirleitt mestur í júlí en í þeim mánuði, árið 2021, voru 62 landverðir við störf hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Meginstarfsstöðvar eru í Ásbyrgi, Mývatnssveit, Skriðuklaustri/Fellabæ, Höfn í Hornafirði, Skaftafelli og Kirkjubæjarklaustri auk miðlægrar skrifstofu á Urriðaholti í Garðabæ. Landverðir starfa á meginstarfstöðvum, í gestastofum og landvörslustöðvum á hálendi. Krafturinn á bak við þjóðgarðinn liggur ekki einungis í einstakri náttúru, heldur einnig í kröftugu og ánægðu starfsfólki.

Landvörður með fræðslugöngu við Holuhraun. Mynd: Júlía Björnsdóttir