Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Loftslagsbreytingar valdar fræðsluþema ársins 2022 á fyrstu starfsdögunum í tvö ár

Dagana 5. og 6. nóvember s.l. fóru fram starfsdagar Vatnajökulsþjóðgarðs. Starfsfólk frá öllum starfsvæðum þjóðgarðsins mættu til samvinnu á Grand Hótel í Reykjavík, farið var í skoðunarferð með landvörðum Umhverfisstofnunar að eldstöðvunum í Geldingadölum og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Umhverfis- og auðlindaráðherra kom í heimsókn.

12. nóvember 2021
Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt landvörðum Umhverfisstofnunar við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Mynd: Helga Árnadóttir

Sökum heimsfaraldurs COVID-19 hafa ekki verið haldnir starfsdagar hjá Vatnajökulsþjóðgarði í tæp tvö ár. Því var mikil tilhlökkun fyrir því að sameina á einn stað starfsfólk þessa víðfeðma vinnustaðar. Í byrjun nóvember voru alls 43 við störf hjá þjóðgarðinum, á átta starfsstöðum (Akureyri, Ásbyrgi, Mývatnssveit, Fellabær, Höfn, Skaftafell, Kirkjubæjarklaustur og Garðabær). „Starfsdagarnir eru mjög mikilvægir til að styrkja tengsl á milli starfsfólks þjóðgarðsins sem eru dreifðir á margar starfsstöðvar. Þrátt fyrir að starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs nýti mikla kosti fjarfundabúnaðar í störfum sínum þá kemur ekkert í staðinn fyrir að hittast til að kynnast betur, stilla saman strengi og læra hvert af öðru” sagði Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs á starfsdögum á Grand Hótel. Mynd: Helga Árnadóttir.

Kórónuveiran náði hins vegar að taka völdin af framkvæmdastjóra þann 4. nóvember, en þá varð hann skráður í sóttkví og gat því ekki mætt til leiks í persónu á starfsdagana. Aukin smit í samfélaginu voru einnig áminning um að gæta sérstaklega vel að sóttvörnum meðan á starfsdögum stóð og mælst var til þess að allir færu í hraðpróf áður en mætt var til leiks. Þjóðgarðurinn bauð einnig uppá sjálfspróf á staðnum.

Elvar landvörður tekur COVID-19 sjálfspróf á starfsdögum á Grand Hóteli. Mynd: Helga Árnadóttir

Þjóðgarðurinn okkar - Gersemi á heimsvísu

Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs er ýmsu vant þegar kemur að samskiptum og samvinnu þó að langar vegalengdir eða sóttkví skilji að. Þó framkvæmdastjóri hafi ekki getað mætt í eigin persónu setti hann engu að síður starfsdagana með því að ávarpa starfsfólk í gegnum fjarfundarbúnað ásamt því að taka þátt í vinnunni eins og hægt var með hjálp fjarfundartækninnar. Í ávarpi sínu fór Magnús yfir stöðu þjóðgarðsins og bar saman við nýútgefna stefnu þjóðgarðsins: Þjóðgarðurinn okkar, leiðandi í sjálfbærni. Magnús fór einnig yfir jákvæðar rekstarniðurstöður, umfang framkvæmda og ítrekaði mikilvægi öflugrar liðsheildar í starfsemi þjóðgarðsins.

Magnús minntist Snorra Baldurssonar, fyrrum þjóðgarðsvarðar, sem féll frá í lok september langt fyrir aldur fram. Starfsfólk fékk sem virðingarvott við Snorra að gjöf frá þjóðgarðinum nýútgefna bók hans, Vatnajökulsþjóðgarður – Gersemi á heimsvísu, enda einstök bók fyrir þá sem vinna að verndun þessarar mögnuðu náttúru.

Fræðsla og hópefli

Starfsdagarnir voru nýttir til fræðslu, hópeflingar og vinnu í ákveðnum málaflokkum. Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður á norðurhálendi dró upp úr hugmyndabakpoka sínum ýmsar leiðir til að þétta hópinn. Bar þar hæst starfsmannabingó, hvar þátttakendur þurftu að finna út hvaða staðhæfingar ættu við hvaða starfsmann. Staðhæfingar eins og „mér finnst gott að fara að sofa kl 21.30“, og „ég hef verið í heimavistarskóla“. Í ljós kom að starfsfólk býr yfir ýmsum eiginleikum sem mörgum var ekki kunnugt um. Að auki þótti starfsfólk sína einstaka listræna hæfileika þegar þeim var skipt niður í hópa og þau látin tjá með látbragði ýmis orð sem tengjast náttúrufyrirbærum sem finna má í Vatnajökulsþjóðgarði, eins og „jökulhlaup“, „hraun“ og „eyrarrós“.

Starfsfólk að túlka blómið Eyrarrós. Vert að geta þess að undir þessum leik hljómaði lagið „Alparós“. Mynd: Helga Árnadóttir.

„Það var frábært að fá að hittast aftur í raunheimum. Vá hvað við erum orðin mörg og mikið af flott hugsandi fólki sem vinnur hjá okkur og svakalega margt sem hefur áorkast á síðustu árum. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í verkefninu Vatnajökulsþjóðgarður frá byrjun, og séð okkur vaxa og dafna. Fékk samt smá tár í augun við að fá bókina hans Snorra afhenta, þakklát fyrir þessa gjöf og þakklát fyrir að hafa kynnst Snorra sem kvaddi of snemma“,sagði Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður á austursvæði frá árinu 2009.

Heimsókn í Geldingadali

Fræðslutækifæri starfsdaganna fólst m.a. í samvinnu starfsfólks um hin ýmsu málefni en hæst bar þó tækifærið til að fræðast um landvörslu Umhverfisstofnunar við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Mikilvægi þess að læra af öðrum sem starfa á sama sviði og deila reynslu verður seint vanmetið. Ásta Davíðsdóttir, yfirlandvörður hjá Umhverfisstofnun, fór með starfsfólki í Geldingadali á fimmtudeginum hvar gengin var gönguleið A að nýja hrauninu.

Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs við gosstöðvar á Reykjanesskaga. Mynd: Helga Árnadóttir

Ásta sér um daglegt utanumhald um landvörslu á svæðinu en á vakt þennan dag voru einnig landverðirnir Styrmir og Davíð. Af nógu var að taka í samtalinu milli starfsfólks beggja stofnana. Að sögn Ástu hefur landvörslu í Geldingadölum verið tekið vel og hefur hún verið mikilvægt framlag í samvinnu við Almannvarnir, vísindamenn, lögreglu, viðbragðsaðila, sveitarfélag og landeigendur, sérstaklega varðandi forvarnir, öryggi og stýringu og upplifun ferðamanna.

Á myndinni sést Ásta Davíðsdóttir, yfirlandvörður hjá Umhverfisstofnun fræða um gosið í Geldingadölum. Mynd: Helga Árnadóttir.

Vinnuhópar

Þau málefni sem tekin voru fyrir í vinnuhópum á starfsdögunum voru upplýsingamiðlun, loftslagsmál, gerð þjónustustefnu og fræðslumál. Miðlun upplýsinga er dagleg áskorun í sítengdum heimi með gífurlegu magni upplýsinga í umferð. Starfsfólk var spurt hvernig mætti bæta miðlun upplýsinga bæði inn á við sem og út á við. Í loftslagsmálunum var leitað til starfsfólks með hugmyndir að tölusettum markmiðum fyrir árið 2022 og hvaða leiðir séu færar til úrbóta í samgöngum, orku- og úrgangsmálum. Afrakstur vinnunnar verður síðan notaður sem efniviður í loftslagsstefnu fyrir næstu þrjú ár. Fyrstu skrefin voru síðan stigin í gerð þjónustustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs með því að fara í hugmyndvinnu um það hverja þjóðgarðurinn er að þjónusta og hvaða þjónustu hann veitir. Vinnan við fræðslumálin fólst m.a. í hugmyndavinnu um forgangsatriði við endurskoðun fræðsluáætlunar sem fyrirhuguð er á komandi ári, val á fræðsluþema ársins 2022 og hugmyndavinnu um sameiginlegan starfsdag fyrir næstu sumarvertíð. Loftslagsbreytingar urðu fyrir valinu sem fræðsluþema ársins 2022.

Niðurstöður á vali starfsfólks á fræðsluþema Vatnajöklulsþjóðgarðs fyrir árið 2022. Valið var úr 12 sameiginlegum viðfangsefnum þjóðgarðsins sem tiltekin eru í fræðsluáætlun.

„Upplifun mín var góð og mjög gaman að hitta starfsfélagana í raunheimum. Það er mikilvægt að hittast, kynnast betur og deila hugmyndum og því sem við erum að gera hverri starfstöð. Það sem mér finnst standa upp eftir umræður á starfsdögum er að við þurfum að tengjast betur nærsamfélaginu með fræðslu og viðburðum fyrir heimamenn“, sagði Erla Þórey Ólafsdóttir, yfirlandvörður á vestursvæði.

Í allri ofangreindri vinnu var tæknin nýtt til að gera vinnuna skilvirkari og vefforritið menti.com notað til að safna saman hugmyndum og birta jafnóðum. Gott flæði og ánægja var í hópavinnunni sem kemur vel fram í ummælum Guðrúnar Svanhildar Stefánsdóttur, bókara: „Mér fannst þetta bestu starfsdagar sem ég hef mætt á síðan ég fór að vinna hjá þjóðgarðinum. Líkaði vel að hafa þetta mikla hópavinnu þar sem við gátum skipts á skoðunum um þau málefni sem lagt var upp með og þar með lagt okkar að mörkum við stefnumótun og verkefni í nánustu framtíð. Gaman að taka þátt í rafrænum lausnum við að skila inn niðurstöðum umræða sem mér finnst hafa átt sinn þátt í að létta setuna fundinum. Það stendur upp úr hvað gott flæði var á fundunum þannig að ég fann aldrei fyrir leiða eða að ég væri að missa áhuga“.

Alþjóðleg samvinna í náttúruvernd skiptir miklu máli og í lok starfsdaga fékk starfsfólk kynningu á nýju appi, Force for Nature, fyrir landverði og starfsmenn friðlýstra svæða. Jemima Lomax kynnti appið fyrir starfsfólki í gegnum Teams en hún var staðsett í Bretlandi. Force for Nature eru samtök sem vinna að alþjóðasamvinnu landvarða og er appið einn liður í að tengja landverði Jarðar betur saman. Sigurður Erlingsson, landvörður á norðursvæði, hafði þetta að segja um starfsdagana: "Það sem mér fannst mikilvægast var í raun að hitta samstarfsmennina í eigin persónu en ekki bara í gegn um netið og síma. Í svona dreifðri stofnun er nauðsynlegt að hittast stundum og stilla saman strengi. Hópavinnan stóð upp úr, sérstaklega um fræðslu innri og ytri".

Helga Dóra, Ragna Fanney og Eyrún Þóra skrá hugmyndir sínar inn í vefforritið menti. Mynd: Helga Árnadóttir

Umhverfis- og auðlindaráðherra

Það var einkar ánægjulegt að fá Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra í heimsókn í hádeginu á föstudeginum. Mummi, eins og starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs er vanara að nefna ráðherra, snæddi hádegisverð með starfsmönnum og ávarpaði svo hópinn. Ráðherra þakkaði fyrir samvinnuna við starfsfólk þjóðgarðsins, í gegnum súrt og sætt, og það framlag sem Vatnajökulsþjóðgarður leggur til náttúruverndar. Hann ræddi um þá framþróun sem hefur átt sér stað í náttúruvernd og ekki síst fjölgun starfa í málaflokknum, á landsbyggðinni og á heilsársgrundvelli. Mummi hvatti starfsfólk til áframhaldandi metnaðar og góðrar vinnu í náttúruvernd og lagði ríka áherslu á að koma upplýsinum um loftlagsbreytingar að í allri fræðslu og umræðu í þjóðgarðinum, fyrir Ísland, og fyrir heiminn allan. Það var því ekki að ósekju að loftlagsbreytingar var valið þema ársins 2022.

Tækni nútímans var alltumlykjandi á starfsdögunum og mögulega var hápunkturinn þegar framkvæmdastjóri „var með“ á hópmynd af starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs með ráðherra. Mynd: Sigríður Halldórsdóttir.

Starfsmannagleði Hvannar

Formlegri dagskrá starfsdaganna lauk seinnipart föstudagsins 6. nóvember en sama kvöld bauð Hvönn, starfsmannafélag Vatnajökulsþjóðgarðs, til litríkrar vetrargleði. Starfsfólk var hvatt til að mæta í sínum skrautlegasta fatnaði og þess að auki var keppni um flottasta höfuðfatið sem viðbót við einkennisfatnað landvarða. Það var Eyrún Þóra, yfirlandvörður í Skaftafelli, sem þótti bera fegursta höfuðfatið en ósagt skal hvort það fái sinn sess sem hluti af einkennisfatnaði landvarða í nánustu framtíð.

Ragnheiður Björgvinsdóttir, mannauðsstjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, var mjög sátt við afrakstur starfsdaganna. "Góður andi og gleði einkenndi vinnudagana. Það er frábært að upplifa metnaðinn sem starfsfólk hefur fyrir vinnustaðnum enda stóð ekki á svörum við spurningum um allt mögulegt sem viðkemur starfseminni. Nú er verið að fara yfir niðurstöður umræðuhópanna og koma öllum hugmyndum í réttan farveg."

Skipuleggjendur starfsdaganna færa starfsmönnum góðar þakkir fyrir virka samvinnu og áhuga með von um að það líði ekki tvö ár til þeirra næstu.