Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Málþing um akstur á hálendi Íslands

Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður, Vegagerðin og Lögreglan standa fyrir málþingi um akstur á hálendi Íslands á Hótel Selfossi 26. febrúar næstkomandi kl. 17:00-19:00.

15. febrúar 2019

Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður, Vegagerðin og Lögreglan standa fyrir málþingi um akstur á hálendi Íslands á Hótel Selfossi 26. febrúar næstkomandi kl. 17:00-19:00.

Markmiðið með málþinginu er að fræða og ræða hvers vegna umferð um hálendið er takmörkuð á viðkvæmum árstímum. Farið verður yfir mikilvægi þess að náttúruvernd og ferðaþjónusta vinni saman.

Á vorin, þegar snjóa leysir og frost fer úr jörðu, er mikil hætta á skemmdum á vegum og gróðri. Ótímabær umferð er oft mjög skaðleg, sem dæmi þegar ekið er utan vega til að krækja fyrir skafla og polla.

Ferðamannastaðir á hálendi Íslands eru nú vinsælli en nokkru sinni. Umferð un hálendið yfir vetrartímann hefur stóraukist. Allt of algengt er að ekið sé utan vega á snævi þakinni jörð sem iðulega er ófrosin eða snjóþekja ótraust. Það leiðir af sér að mörg svæði láta mikið á sjá þar sem hjólbarðar hafa markað för í landið.

Mesta hættan á náttúruspjöllum vegna aksturs utan vega á snævi þakinni jörð er á vorin og haustin. Margir ferðamannastaðir á hálendinu eru undir miklu álagi vegna aukins fjölda ferðamanna. Það er því mikilvægt að fræðast og ræða um hvernig draga má úr álagi, stuðla að bættri ferðahegðun og standa saman vörð um náttúru Íslands.