Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Mannauður Vatnajökulsþjóðarðs: 50 ársverk árið 2021

Í lok árs 2021 var hjá Vatnajökulsþjóðgarði 31 fastráðið starfsfólk með mikla þekkingu og reynslu og voru 26 fólksins á starfsstöðvum á landsbyggðinni. Mannauðurinn er lykill að góðum árangri og því er lögð áhersla á fræðslu, starfsánægju og nýsköpun í starfseminni. Á sumrin bætast árlega við um 80 starfsmenn sem sinna landvörslu, þjónustu og fræðslu til gesta þjóðgarðsins og eru þau störf öll unnin á landsbyggðinni. Á árinu 2021 voru unnin um 50 ársverk hjá Vatnajökulsþjóðgarði og eru um 90% þeirra á landsbyggðinni.

13. júní 2022

Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt landvörðum Umhverfisstofnunar við gosstöðvarnar í Geldingadölum í byrjun nóvember 2021. Mynd: Helga Árnadóttir.

Þegar flest starfsfólk var við störf í júli 2021 voru það 106 einstaklingar en fastráðið starfsfólk var 31. Fjöldi fastráðins starfsfólks í Vatnajökulsþjóðgarði hefur aukist síðustu árin og bætist sífellt í þann hóp. Þessi þróun eykur stöðugleika í starfsemi þjóðgarðsins og gerir okkur kleift að byggja á reynslu og þekkingu sem skapast í störfum. Til samanburðar má nefna að fyrir þremur árum var fastráðið starfsfólk 21 talsins. Meðalaldur starsfsfólks árið 2021 var 41,6 ár og starfsaldur 4,9 ár.

Ný stöðugildi sem bættust við á árinu voru nokkrir. Ráðinn var inn lögfræðingur í heilt starf í mars. Á austursvæði var ráðinn inn yfirlandvörður í heilsársstarf og hóf hann störf í maí. Á suðursvæði var ákveðið að ráða tvo þjóðgarðsverði á suðursvæði sem áður hafði verið stýrt af einum þjóðgarðsverði. Þjóðgarðsverðir á suðursvæði hófu störf samkvæmt nýju skipulagi svæðisins um haustið 2021.

Einnig auglýsti Vatnajökulsþjóðgarður nokkrar lausar stöður til skemmri og lengri tíma á árinu. Alls bárust um 450 umsóknir um störf á árinu sem lýsir áhuga á störfum í þjóðgarðinum. Til viðbótar bárust fjölmargar fyrirspurnir í tölvupósti um störf eða starfsnám í þjóðgarðinum.

Fleiri upplýsingur um mannauð þjóðgarðsins og stjórnun má nálgast í ársskýrslu fyrir árið 2021.