Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Myndavélar vakta skúmshreiður á Breiðamerkursandi

Náttúrustofa Suðausturlands vaktar afkomu skúms á Breiðamerkursandi. Landinn á RÚV fylgdist með Lilju Jóhannsdóttur, fuglafræðing hjá Náttúrustofunni, við störf sín á sandinum í sumar. Upptökur úr myndavélum sýndu að skúmurinn fær ýmsar áhugaverðar heimsóknir á hreiðurtíma

18. nóvember 2021
Sauðfé og skúmur í góðu yfirlæti á Breiðamerkursandi í sumar. Mynd: Náttúrustofa Suðausturlands/skjáskot frá RÚV.

Í frétt RÚV kemur fram að skúmnum hefur fækkað mikið og er á válista og talinn í bráðahættu - en þriðjungur heimsstofnsins verpir hér á landi. Lilja segir ástæðuna fyrir fækkuninni líklega felast í breytingum á fæðuaðgengi en eins og fleiri sjófuglategundir þá hefur skúmurinn reitt sig á sandsíli sem hefur verið af skornum skammti eftir hrun í sandsílastofninum. Einnig eru líkur á að aukið afrán spili eitthvað inn í.

Hér má nálgast hlekk á umfjöllun Landans um verkefnið.

Vöktun Náttúrustofu Suðausturlands á afkomu skúms á Breiðamerkursandi er eitt af átta rannsóknarverkefnum Náttúrustofunnar innan Vatnajökulsþjóðgarðs á þessu ári sem og hluti af samstarfsverkefni er snýr að vöktun náttúruverndarsvæða. Það verkefni er í umsjón Náttúrufræðistofnunar Íslands og hófst árið 2019. Vöktunin felst bæði í að kortleggja öll hreiður á afmörkuðu svæði umhverfis Jökulsárlón á Breiðamerkursandi (sjá mynd) og fylgjast síðan með varpárangri (hvernig skúmnum gengur að koma ungum á legg).

Í sumar setti Lilja einnig upp myndavélar við hvert hreiður til að freista þess að sjá hvaða fæðu fullorðnu fuglarnir eru að færa ungum sínum – sem og til að sjá hvaða afræningjar eru helst á ferðinni. Í sumar komu fá pör upp ungum á Breiðamerkursandi og aðeins eitt hreiður á vöktunarsvæðinu umhverfis Jökulsárlón náði að klekja unga en það misfórst þó að lokum. Lífsbarátta skúmsins er hörð og mikið lagt í til að koma ungum á legg.

Ástæða lélegs varpárangurs getur bæði verið fæðuskortur eða afrán. Ýmsir afræningjar koma til greina, eins og tófa, minkur, aðrir fuglar og jafnvel kindur eða hreindýr. Upptökurnar í sumar náðu ekki að varpa ljósi á það hvaða afræningja hreiðra væri um að ræða en í ljós kom að kindur eru greinilega óhræddar við skúminn.

Mynd úr verkefninu Vöktun náttúruverndarsvæða. Vöktunarsvæði varpárangurs skúms við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er afmarkað með ljósgrænu. Skúmshreiður árin 2020 (rauðir hringir, rauðir hringir með x yfir tákna hreiður sem misfórust) og 2021 (svartir þríhyrningar – öll hreiður misfórust) eru merkt inn á myndina.

„Vöktun ferðamannasvæða eins og við Jökulárlón er mjög mikilvæg. Það er óhjákvæmilegt að mikill fjöldi ferðamanna geti valdið raski á fuglalifi og því nauðsynlegt að reyna að fylgjast með hvert umfang þess er og hafa þá möguleika á að grípa til aðgerða. Vöktunin er skammt á veg komin og gagnaöflun komandi ára getur vonandi gefið skýrari mynd á það hvað valdi svona mikilli fækkun skúma“, segir Lilja Jóhannsdóttir.

Fréttin er að hluta byggð á áður birtri frétt á RÚV og innleggi í Landanum.