Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Náttúruperlur Íslands - Starfshópur um friðlýst svæði skilar niðurstöðum til ráðherra

Hlutverk, verkefni og verklag þeirra stofnana sem reka þjóðgarða og önnur friðlýst svæði á Íslandi er ólíkt, verkaskipting stundum óljós og þörf er á að samræma stjórnsýslu og stjórnskipulag. Þá er meirihluti fylgjandi gjaldtöku fyrir þjónustu á helstu ferðamannastöðum á þjóðgörðum og friðlýstum stöðum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ásamt starfshópnum, sem var skipaður þeim Guðrúnu Svanhvíti Magnúsdóttur, Árna Finnssyni og Sveinbirni Halldórssyni. Á myndinni eru einnig Magnús Guðmundsson og Steinar Kaldal frá ráðuneytinu sem unnu með hópnum. Mynd: Stjórnarráð Íslands.

Þá er meirihluti fylgjandi gjaldtöku fyrir þjónustu á helstu ferðamannastöðum á þjóðgörðum og friðlýstum stöðum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu um stöðu og áskoranir þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða sem kynnt var í Hörpu í dag. Var kynningin vel sótt, en auk þess fylgdist stór hópur með í gegnum streymi og fylgdust alls um 900 manns með viðburðinum á staðfundi eða í streymi.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði síðastliðið vor þriggja manna starfshóp sem fékk það hlutverk að vinna skýrslu sem varpa á ljósi á stöðu friðlýstra svæða á Íslandi og áskoranir sem þeim fylgja. Starfshópurinn var skipaður þeim Árna Finnssyni, sem var formaður hópsins, Guðrúnu Svanhvíti Magnúsdóttur og Sveinbirni Halldórssyni.

66% fylgjandi gjaldtöku fyrir þjónustu

Í skoðanakönnun sem unnin var af Maskínu í tengslum við gerð skýrslunnar kemur fram að 51% aðspurðra telja að friðlýsa eigi fleiri svæði, 66% eru fylgjandi gjaldtöku fyrir þjónustu á helstu ferðamannastöðum og 49% eru fylgjandi gjaldtöku fyrir aðgengi að helstu ferðamannastöðum á friðlýstum svæðum og þjóðgörðum. Þá telja 36% almennt vel staðið að verndun náttúru Íslands.

Móta þarf stefnu um gjaldtöku og efla tengsl

Víðtækt samráð var haft við hagaðila við gerð skýrslunnar og byggði hópurinn við vinnu sína auk gagna og rannsókna sem fyrir liggja, á ýmsum ábendingum frá þeim sem mættu á fund starfshópsins eða sendu inn upplýsingar. Meðal helstu niðurstaðna sem eru dregnar fram í skýrslunni er að:

  • Hlutverk, verkefni og verklag þeirra stofnana sem reka þjóðgarða og önnur friðlýst svæði á Íslandi, er ólíkt og verkaskipting stundum óljós og þörf á að bæta og einfalda fyrirkomulag þjónustu við þá sem nýta sér svæðin til útivistar eða í atvinnuskyni.
  • Einfalda þarf stjórnsýslu vegna gjaldtöku og leyfismála og samræma.
  • Móta þarf stefnu um gjaldtöku á friðlýstum svæðum á Íslandi og tryggja að tekjur af gjaldtöku megi nýta bæði til að veita þjónustu og til uppbyggingar og viðhalds mannvirkja.
  • Efla þarf rannsóknir á þolmörkum náttúru, innviða og upplifunar gesta á friðlýstum svæðum.
  • Styrkja þarf tengsl við sveitarfélög, nærsamfélög, hagaðila og atvinnulíf.
  • Byggja þarf upp traust til að ná góðri sátt á milli allra sem koma að friðlýstum svæðum.

Í skýrslunni kemur einnig fram að rannsóknir sem þegar hafa verið gerðar á Íslandi bendi til þess að hagræn áhrif af rekstri þjóðgarða og friðlýstra svæða séu veruleg, en að vinna þurfi langtímaáætlun í samvinnu við sveitarfélög og hagaðila um uppbyggingu og viðhald innviða á svæðunum. Þá sé mikilvægt að meta með heildstæðum hætti hvernig öryggismálum á og við friðlýst svæði sé best háttað, ekki hvað síst á þeim svæðum þar sem langt er í viðbragðsaðila.

Traust undirstaða þess að náttúruvernd takist vel

„Skýrsla starfshópsins nýtist mjög vel í starfi ráðuneytisins við að forgangsraða verkefnum m.a. í tengslum við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í sumum tilfellum er vinna þegar hafin og má þar t.d. nefna samráðsverkefni ráðuneytisins og stofnana þess við að greina stofnanaskipulag. Í öðrum tilfellum eru áform um að afla frekari upplýsinga, setja á laggirnar starfshópa og efla samráð og samtal. Traust á milli allra aðila er undirstaða þess að náttúruvernd takist vel og er skýrsla starfshópsins skref í þá átt.“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Á Íslandi eru 130 friðlýst svæði, þar af þrír þjóðgarðar. Svæðin eru undir stjórn þriggja stofnana og umsjón með svæðunum og stjórnarfyrirkomulag á þeim er því með ólíkum hætti. Á undanförnum árum hefur farið fram umræða um tækifæri og áskoranir sem fylgt geta því að friðlýsa landsvæði á Íslandi. Þá er tilgreint í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að á kjörtímabilinu verði, með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, stofnaður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu. Lögð er áhersla á það í stjórnarsáttmálanum að það verði gert í samvinnu við heimamenn og að svæðisráðum þjóðgarðs á hálendinu verði fjölgað frá því sem er í Vatnajökulsþjóðgarði. Er skýrslunni ætlað að vera grunnur fyrir frekari skoðun á þessu skipulagi.

Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði - Staða og áskoranir

Maskínukönnun - Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Fréttin var fyrst birt á vef Stjórnarráðs Íslands.