Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Náttúrustofur með 17 rannsóknarverkefni innan Vatnajökulsþjóðgarðs

Samstarf Vatnajökulsþjóðgarðs við vísindasamfélagið er bæði lögbundið og afar verðmætt. Árlega er unnið að fjölþættum rannsóknum í síkvikri náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs meðal annars af náttúrustofum á nærsvæðum þjóðgarðsins.

26. ágúst 2021
Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarðs við merkingar á helsingja á Breiðamerkursandir sumarið 2020. Mynd: Sæmundur Helgason

Það sem af er þessu ári hafa verið gefin út 58 rannsóknarleyfi innan þjóðgarðsins og þar af eru 17 leyfi til landshlutabundinna náttúrustofa.

Í nýútgefinni ársskýrslu þjóðgarðsins kemur fram að á árinu 2020 voru alls gefin út 35 rannsóknarleyfi (mynd 1). Þar af voru tvö leyfi til náttúrustofa. Það sem af er þessu ári hafa verið gefin út 58 rannsóknarleyfi og þar af eru 17 til náttúrustofa. Á árinu er Náttúrustofa Suðausturlands með 8 rannsóknarverkefni innan þjóðgarðsins, Náttúrustofa Norðausturlands með 7 verkefni og Náttúrustofa Austurlands með tvær rannsóknir. Rannsóknirnar eru fjölbreyttar og ná yfir gróðurfar, fugla- og dýrlíf og jarðfræði, eins og sjá má í töflunni hér fyrir neðan. Aðrar innlendar vísindastofnanir eru einnig virkar í rannsóknum innan þjóðgarðsins og má þar nefna Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands. Að auki eru fjölmörg rannsóknarverkefni í gangi á vegum erlendra vísindaaðila.

Yfirlit yfir útgefin rannsóknarleyfi í Vatnajökulsþjóðgarði 2019 og 2020, skipt á milli rekstarsvæða. Athuga þarf að heildarfjöldi útgefinna leyfa er lægri en samanlögð leyfi svæða, þar sem ein rannsókn getur náð yfir meira en eitt svæði.

Yfirlit rannsókna náttúrustofa í Vatnajökulsþjóðgarði á árinu 2021:

Vöktun náttúruverndarsvæðaer eitt af þeim verkefnum sem náttúrustofurnar sinna. Um er að ræða samstarfsverkefni í umsjón Náttúrufræðistofnunar Íslands sem hófst árið 2019 og snýr að heildstæðri vöktunaráætlun á landsvísu til vöktunar náttúruminja á náttúruverndarsvæðum og öðrum svæðum sem eru undir álagi vegna ágangs ferðamanna. Verkefnið er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa á landinu, Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs og var sett á laggirnar að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Gögnum er safnað í gagnagrunn, sem hannaður var fyrir verkefnið, og þau varðveitt hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Gögnin verða birt á vefsíðu verkefnisins og í kortasjá.

Skjáskot af kortsjá Náttúrufræðstofnunar Íslands úr verkefninu "Vöktun náttúruverndarsvæða".

Eitt af markmiðum með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að stuðla að rannsóknum á svæðinu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020 skal afla leyfis þjóðgarðsvarðar vegna allra verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja í þjóðgarðinum, þ.m.t. vegna rannsókna innan þjóðgarðsins. Á árinu 2020 voru innleidd rafræn kerfi fyrir umsóknir um leyfi og hægt er að sækja um öll rannsóknarleyfi í gegnum þjónustugátt. Matsnefnd leyfisveitinga fer yfir allar umsóknir. Í matsnefnd sitja fulltrúar frá hverju svæði ásamt starfsfólki miðlægrar skrifstofu. Hlutverk matsnefndar er ráðgefandi og vettvangur til samræmingar verklags vegna umsókna og leyfisveitinga innan þjóðgarðsins.

Vatnajökulsþjóðgarður er þakklátur öflugu og faglegu vísindastarfi sem vinnur að vöktun á gæðum þjóðgarðsins, ásamt stöðugri þekkingarleit og öflun nýrra upplýsinga um náttúrufar, menningu og samfélag þjóðgarðs og nærsvæða. Miðlun rannsókna er síðan stór þáttur í mikilvægu fræðsluhlutverki þjóðgarðsins.