Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Nýir söfnunargámar í Skaftafelli frá Björgunarsveitinni Kára

Björgunarsveitin Kári í Öræfum kom á dögunum í Skaftafell með fyrstu eininguna af nýjum söfnunargámum fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir.

6. apríl 2021
Starfsmenn í Skaftafelli ásamt fulltrúum Björgunarsveitarinnar Kára við nýja söfnunargáminn. Mynd: Helga Árnadóttir.

Björgunarsveitin Kári hefur undanfarin ár séð um að safna skilagjaldsskyldum umbúðum á tjald- og þjónustusvæðinu í Skaftafelli í samstarfi við þjóðgarðinn. Sjálfboðaliðar í björgunarsveitinni flokka síðan umbúðirnar og skila inn til viðkomandi endurvinnsluaðila. Fram til þessa hefur umbúðum verið safnað í svokölluð “netabúr”. Nýju gámarnir eru einfaldari í umgengni en búrin, ásýnd þeirra er betri og vonast er til að skýrari merkingar komi upplýsingum um endurvinnsluflokk betur til skila.

Samstarf Björgunarsveitarinnar Kára og Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli er ávinningur fyrir hringrásarhagkerfið með endurnýtingu á hráefni. Einnig stuðningur fyrir öfluga en fámenna björgunarsveit á svæði þar sem nauðsynlegt er geta brugðist hratt og vel við hættum vegna t.d. slæmra veðurskilyrða, náttúruvár og umferðar.