Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Nýtt skipulag skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs

Þann 1. febrúar tók gildi nýtt skipulag á miðlægri skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs og hefur henni verið skipt í þrjú svið, Fjármála- og framkvæmdasvið, Mannauðs- og fræðslusvið og Stjórnsýslusvið. Um leið breytast störf fjármálastjóra, mannauðsstjóra og lögfræðings í að verða sviðsstjórar þessara sviða.

3. febrúar 2022

Breytingar sem þessar eru mikilvægur liður í að þroska skipulag og samstarf innan Vatnajökulsþjóðgarðs í takt við gildandi stefnu og áherslur stjórnvalda, s.s. varðandi rafræna stjórnsýslu, græn skref í ríkisrekstri, fræðslu og aukna áherslu á mannauðsmál og vellíðan starfsfólks. Það er mikilvægt að vinna að breytingum til að geta brugðist við þörfum og vera undirbúin frekar en að bregðast við breytingum eftir á “, segir Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri þjóðgarðsins.

Á vordögum 2021 var skerpt á stefnu Vatnajökulsþjóðgarðs og leiðin vörðuð til næstu fimm ára. Ein af þeim 25 lykilvörðum sem marka stefnuna er að „Yfirfara stjórnarhætti til að efla samspil stjórnar, svæðisráða og stjórnenda til að ná fram aukinni skilvirkni í starfsemi, bæta samráð og ákvarðanatöku“. Breyting á skipulagi miðlægrar skrifstofu er einn liður í að ná þessu markmiði.

Vatnajökulsþjóðgarður hefur stækkað mikið frá stofnun hans árið 2008, hvað varðar t.d. landsvæði, fjölda starfsmanna, fjölda gesta og skipulagið er orðið flóknara. Því hefur orðið til þörf á skýrara skipulagi með áherslu á samræmingu og stuðning miðlægrar skrifstofu við einstök svæði og kjarnaþætti í starfsemi þjóðgarðsins. Við úttekt Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakana (IUCN) í umsóknarferli við skráningu á heimsminjaskrá var ein ábendingin að efla mannauð þjóðgarðsins sem þetta breytta skipulag tekur m.a. á.

Áfram verður unnið að frekari útfærslu og skipulagi skrifstofu og svæða, t.d. teymisskipulagi, formlegri verkefnastýringu, innleiðingu stefnu og bættu upplýsingaflæði.

Hér má nálgast yfirlit yfir skipurit Vatnajökulsþjóðgarðs framvegis

Nýtt skipurit skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs

Elda skipurit skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs

Vatnajökulsþjóðgarður & heimsmarkmiðin

Skipurit þjóðgarðsins tengist eftirfarandi heimsmarkmiði:

8. Góð atvinna og hagvöxtur