Opið hús og hugarflug á vestursvæði
Nóg var um að vera á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðsins í upphafi vikunnar. Fyrsta „kaffiboðið“ var haldið í nýju gestastofunni á Kirkjubæjarklaustri, boðað var til hugarflugsfundur með íbúum um nýju gestastofuna ásamt því að dregið var úr ratleik Uppskeruhátíðarinnar.
Síðastliðinn sunnudaginn var haldið kaffiboð innan um mótatimbur og steypustyrktarjárn á byggingarsvæði nýju gestastofunnar á Kirkjubæjarklaustri, sem rís nú óðum við Sönghól. „Steypuvinnu í byggingunni fer að ljúka og því fannst okkur tilvalið að bjóða íbúum að sjá hvernig gestastofan er að taka á sig mynd“, sagði Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður á vestursvæði. Starfsfólk þjóðgarðsins gekk með gestum um byggingarsvæðið og ræddi framkvæmdir og fyrirætlanir. Hátt í 50 gestir komu í kaffi og með því og gripið var í harmonikkuna í sólskininu seinnipartinn.
Á mánudagskvöldið var svo boðað til hugarflugsfundar með íbúum, um nýju gestastofuna. Þátttakendur fengu stutta kynningu á húsinu og svo var farið í hugmyndavinnu um hlutverk gestastofunnar og umfjöllunarefni sýningarinnar sem þar verður.
Að sögn Benedikts Traustasonar, landvarðar á vestursvæði, komu fram margar góðar hugmyndir. „Við þökkum við öllum gestum kvöldsins kærlega fyrir þátttökuna. Afraksturinn er svo sannarlega mikilvægt veganesti í vinnuna sem framundan er“, sagði Benedikt.
Á mánudagskvöldinu var einnig dregið úr ratleik Uppskeruhátíðar Skaftárhrepps sem Vatnajökulsþjóðgarður, Umhverfisstofnun og Katla Geopark stóðu að. Í verðlaun voru glæsilegir vinningar úr nærsveitum og óskum við vinningshöfum hjartanlega til hamingju.
Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs þakkar öllum kærlega fyrir komuna um helgina, þátttöku á fundinum og allar hugmyndirnar.
Fleiri myndir frá viðburðunum má nálgast á Facebook Vatnajökulsþjóðgarðs.