Beint í efni

Öræfin eystra - tækifæri í rannsóknum?

Agnes Brá Birgisdóttir þjóðgarðsvörður á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs flutti erindið „Vatnajökulsþjóðgarður – Öræfin eystra, tækifæri í rannsóknum?“ á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands, miðvikudaginn 24. febrúar 2021.

16. mars 2021
Í Kreppulindum 2019. Mynd: Agnes Brá Birgisdóttir

Agnes Brá Birgisdóttir þjóðgarðsvörður á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs flutti erindið „Vatnajökulsþjóðgarður – Öræfin eystra, tækifæri í rannsóknum?“ á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands, miðvikudaginn 24. febrúar 2021. Upptöku af erindinu má nálgast hér.

Í fyrirlestrinum var fjallað um vöktun og rannsóknir á svæðinu og rætt um möguleika á nýjum rannsóknum.

Á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs eru miklar andstæður á milli gróinna Snæfellsöræfa, þar sem náttúran og nýting hennar í gegnum aldirnar er meginstef, og öræfanna norðan Vatnajökuls og hinnar dulmögnuðu, lítt grónu Krepputungu sem fáir þekkja.

Öræfin umhverfis Snæfell eru gróðurrík, nokkuð flöt, háslétta í 6–800 m h.y.s. og eru þau hluti af samfelldri gróðurþekju frá Héraðssandi inn að Vatnajökli sem er ein lengsta samfellda gróðurþekja á landinu, frá hafi inn að jökli. Verndargildi svæðisins liggur í votlendissvæðum eins og Ramsarsvæðinu á Eyjabökkum, sem er alþjóðlega mikilvægt fyrir heiðagæs, og fuglalífi, jökulminjum og mikilvægi svæðisins fyrir hreindýr. Vegna virkjunarframkvæmda er gróður og dýralíf vel vaktað á svæðinu og eru töluverðar rannsóknir til þá sérstaklega á virkjunarsvæðinu sjálfu.

Kverkárrani (81 km2) er afskekktur rani norður af Brúarjökli, sem afmarkast af Kverká í austri og Kreppu í vestri, en verndargildi hans liggur fyrst og fremst í sögu jökulskriðs. Krepputunga (591 km2) teygir sig norður frá Kverkfjöllum, á milli Kreppu í austri og Jökulsár á Fjöllum í vestri, til ármóta þar sem finna má hinar sérstæðu Kreppulindir. Verndargildi Krepputungu er fyrst og fremst jarðfræðilegs eðlis, þótt viðkvæmur hálendisgróður finnist á svæðinu, t.d. í Hvannalindum, þar sem einnig finnast minjar eftir útilegufólk. Svæðið er lítt rannsakað og þær athuganir sem gerðar hafa verið á lífríki svæðisins farnar að koma til ára sinna. Landverðir í Hvannalindum sinna reglulegri vöktun á varpi heiðagæsa o.fl.

Á þeim 12 árum sem svæðið hefur verið þjóðgarður hefur Vatnajökull minnkað um 300 km2 og eru breytingarnar vel sýnilegar norðan jökulsins. Mikið landsvæði er að koma undan jökli bæði fyrir framan skriðjökla og ný jökulsker eru að koma í ljós. Öfugt við mörg önnur svæði þjóðgarðsins þá fjölgar ferðamönnum lítið á austursvæði.