Öryggi og aðgengi
Vatnajökulsþjóðgarður var með erindi á Slysavarnaráðstefnu Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem haldin var 15. og 16. október sl.
Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, verkefnastjóri skipulags- og öryggismála, flutti þar erindið „Öryggi og aðgengi“. Þessir þættir vega þungt í skipulagi og rekstri þjóðgarðsins og eru á margan hátt órjúfanlegir. Markmiðið er að veita gestum aðgengi, á sem öruggastan hátt, að teknu tilliti til ólíks eðlis þeirra breiðu flóru svæða sem Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir.
Í fjölsóttum þjóðgarði eldvirkni og íshella - og alls þar á milli, er grunnur öryggismála gott skipulag og samvinna. Í því samhengi hefur Vatnajökulsþjóðgarður lagt ríka áherslu á þjálfun starfsmanna og náið samtal við viðbragðsaðila. Forvarnir á áfangastöðum eru útfærðar með skiltum á vettvangi, í fræðsluspjalli eða skilvirku upplýsingaflæði um aðstæður (sjá heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs og SafeTravel ). Fagmennska í leiðsögn er ríkur þáttur í því að varna slysum í traustum þjóðgarði, sem tekist hefur verið á við með samstarfi um atvinnustefnu þjóðgarðsins.