Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Samið við Hótel Skaftafell um rekstur veitingasölu í Skaftafelli

Vatnajökulsþjóðgarður hefur skrifað undir samning við eigendur Hótels Skaftafells um að þau taki að sér rekstur veitingasölu í Vatnajökulsþjóðgarði í Skaftafelli til eins árs.

14. apríl 2019

Vatnajökulsþjóðgarður hefur skrifað undir samning við eigendur Hótels Skaftafells um að þau taki að sér rekstur veitingasölu í Vatnajökulsþjóðgarði í Skaftafelli til eins árs. Gert er ráð fyrir að nýr rekstraraðili hefji starfsemi í maí.

Náttúrufegurð, veðurblíða, saga og menning hefur löngum gert Skaftafell að vinsælum áfangastað ferðamanna. Þar eru margar gönguleiðir og þó leiðirnar að Svartafossi og Skaftafellsjökli séu fjölsóttastar eru einnig margir sem fara lengri leiðirnar: upp að Kristínartindum, inn í Morsárdal, inn í Bæjarstaðaskóg og fleira mætti telja. Margir nýta tjaldsvæðið, aðrir gista annars staðar en koma í Skaftafell í lengri eða skemmri göngur.

Gestum í Skaftafelli hefur fjölgað mikið síðustu árin. Yfir vetrarmánuðina eru þeir oft um þúsund á dag, sú tala margfaldast á sumrin. Það er augljós staðreynd að fyrir slíkan gestafjölda þarf að vera hægt að uppfylla grunnþarfir varðandi mat og ýmsa þjónustu.

Í haust ályktaði stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og svæðisráð suðursvæðis um að þörf væri fyrir veitingarekstur í Skaftafelli en að sá rekstur væri ekki hluti af kjarnastarfsemi þjóðgarðsins. Þjóðgarðurinn auglýsti eftir áhugasömum aðilum til að taka að sér reksturinn og áhersla var lögð á að starfsemin myndi styðja við markmið þjóðgarðsins og lúta skilyrðum sem nánar voru útlistuð til þeirra sem óskuðu eftir gögnum.

Enginn þeirra sem óskuðu eftir gögnum sendi inn tilboð, en áhugi var til staðar þó enginn treysti sér til að uppfylla öll viðmiðin sem sett höfðu verið. Eins var skortur á starfsmannahúsnæði mikil hindrun. Farið var í viðræður og á föstudag náðust samningar sem báðir aðilar gátu fallist á. Það er með mikilli ánægju og tilhlökkun sem við bjóðum fyrirtækið Hótel Skaftafell velkomið til samstarfs, en á sama tíma þökkum við öllum þeim aðilum sem sýndu okkur velvilja og könnuðu möguleika á samstarfi.