Beint í efni

Jöklasýn - ljósmyndavöktun á jöklabreytingum

Samstarfsverkefni Jöklarannsóknafélags Íslands og ljósmyndarans James Balog.

28. júní 2024
Áhugasamir gestir nýta sjónskífuna til myndatöku af jöklinum á Sjónarnípu. Mynd: Kieran Baxter

Sjónskífa ásamt fræðsluskilti hefur verið sett upp á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs á vegum Jöklarannsóknafélags Íslands. Verkefnið er samstarfsverkefni með ljósmyndarnanum James Balog og ber heitið Jöklasýn eða Extreme Ice Survey Iceland (EISI). Sjónskífan er staðsett á Sjónarnípu á Skaftafellsheiði með útsýni yfir Skaftafellsjökul. Önnur sjónskífa var sett upp í nálægð við þjóðgarðinn, rétt við veginn upp í Jöklasel, norðan við Þormóðarhnútu með útsýni yfir Skálafellsjökul.

Fræðsluskiltið og sjónskífan við Skálafellsjökull. Mynd: Kieran Baxter

Verkefnið Jöklasýn gengur út á að skapa sjónræna arfleifð með því að ljósmynda jökla frá skilgreindum stöðum í samvinnu almennings og vísindafólks. Sjónskífurnar eru hugsaðar sem ljósmyndastaður og eru með sérstöku statífi sem sími er lagður í þannig að sama sjónarhorn fáist þegar mynd er tekin. Markmið verkefnisins er að safna ljósmyndum í aðgengilegan gagnabanka um breytingar á íslenskum jöklum næstu 100 árin og miðla þeim upplýsingum til almennings. Á skiltunum eru samanburðarmyndum af viðkomandi jökli og leiðbeiningum um hvernig gestir geta tekið þátt í verkefninu.

Hópur frá Jöklarannsóknafélagi Íslands við uppsetningu á sjónskífunni og fræðsluskiltinu á Sjónarnípu. Mynd: Kieran Baxter

Breytingar á jöklum vegna hlýnandi loftslags og afleiðingar þeirra eru óvíða eins miklar, hraðar og áþreifanlegar og við sunnanverðan jökulinn. Verkefnið er mikilvægt til að vekja athygli á þeim hröðu jöklabreytingum sem eru að eiga sér stað á Íslandi og er góð viðbót við þá fræðslu sem á sér stað á svæðunum um loftlagsbreytingar. Jafnframt gefa þær almenningi tækifæri á að leggja sitt af mörkum í að vakta náttúruna. Sjónskífurnar vöktu strax athygli gesta á svæðinu sem voru farin að taka myndir og setja inn á heimasíðuna.

Í nýlegri frétt á vísi er rætt við jöklafræðinga á Jarðvísindastofnun og Veðurstofunni um stöðu íslenskra jökla. Þar er meðal annars talað um þetta verkefni og vakin athygli á því að heildarflatarmál íslenskra jökla minnkar um það bil um 40 ferkílómetra á ári, eða sem nemur einu Mývatni. Jöklarnir hopa mishratt en margir af stóru skriðjöklum Vatnajökuls hörfa um allt að 100-200 metra á ári. Vitundarvakning á hveru hratt jöklarnir hopa vegna hlýnandi loftslags er því gífurlega mikilvæg.

Ís­lenskir jöklar minnka um fjöru­tíu fer­kíló­metra á ári - Vísir (visir.is)

Lesa má nánar um verkefnið Jöklasýn hér:

jokull2023.73.099o.pdf (jorfi.is)

http://eisi.jorfi.is/

https://www.youtube.com/watch?v=rEdgBtI_5JI

Við hlökkum til að fylgjast með afrakstri verkefnisins og áframhaldandi samstarfs.