Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Samvinna og samfélag leiðarstef í alþjóðlegri ráðstefnu á Kirkjubæjarklaustri

Árleg ráðstefna Samtaka norrænna heimsminjastaða, fór fram hérlendis, dagana 5.-8. september sl. Vatnajökulsþjóðgarður var gestgjafi ráðstefnunnar í ár og fór hún fram í nýrri gestastofu vestursvæðis þjóðgarðsins í Skaftárhreppi.

23. október 2023
Skoðunarferð á undan formlegri ráðstefnu. Ráðstefnugestir á Stóraskeri, rétt vestan við fjallið Laka. Mynd: Ingibjörg Smáradóttir

Þema ráðstefnunnar í ár var: Samfélag og samvinna – í takt við náttúruna. Á fyrsta degi gaf náttúran góðan upptakt fyrir samvinnuna framundan þegar gestum var boðið í dagsferð inn á hálendið. Veðurguðirnir veittu fyrirtaks ferðaveður og perlur svæðsins, fjallið Laki og Lakagígarnir skrýddust ferskum haustlitum sem glöddu bæði gesti og smala sem voru að hefja haustverkin.

Horft af Laka eftir Lakagígum til norðausturs. Mynd: Helga Árnadóttir.

Þegar komið var að formlegri dagskrá í glænýrri gestastofu þjóðgarðsins við Sönghól á Kirkjubæjarklaustri, hvar taktföst slög verkfæra höfðu ómað daginn áður, var fundarstjórn í öruggum höndum Boga Ágústssonar, fyrrum fréttamanns á RÚV sem leiddi áfram hinn samnorræna takt samvinnu og samfélags. Á meðan á ráðstefnunni stóð gafst gestum kostur á að skoða sýninguna Vorferð, sem fengin var að láni frá Jöklarannsóknarfélagi Íslands. Sýningin rekur m.a. sögu jöklamælinga á Íslandi og sýnir áhrif loftslagsbreytinga á jökla.
Að morgni fyrri ráðstefnudags tók Ingibjörg Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs á móti um það bil 130 áhugasömum gestum frá fimm þjóðlöndum og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannessson ávarpaði samkomuna.

Hr. Guðni Th. Jóhannesson ávarpar ráðstefnu gesti. Mynd: Ingibjörg Smáradóttir

Forseta varð tíðrætt um ábyrga ferðmennsku í ávarpi sínu. Hann lagði þunga áherslu á mikilvægi þess að Íslendingar sýni ábyrgð gagnvart náttúru, vinnuafli, sögu og menningu, gestum, okkur sjálfum og íslenskri tungu. Í framhaldi af ávarpi Guðna tóku til máls innlendir sem erlendir sérfræðingar, skáld og nemar og Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, viðskipta og menningar, ávarpaði gesti í gegnum fjarfund. Eftir hádegi voru tvær málstofur, um sjálfbæra, atvinnutengda nýtingu friðlýstra svæða og um menntun í átt að sjálfbærara samfélagi. Að málstofum loknum var boðið í skoðunarferð í Skaftafell þar sem starfsfólk leiddi fræðslugöngu að Skaftafellsjökli.

Gestir ráðstefnu ásamt starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs við heimsminjaskjöldinn í Skaftafelli. Mynd: Ingibjörg Smáradóttir.

Er komið var til baka á Kirkjubæjarklaustur afhjúpaði Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti, nýjan heimsminjaskjöld sem staðsettur er fyrir utan nýju gestastofuna. Fyrir var skjöldur í Skaftafelli og fyrirhugað er að einn heimsminjaskjöldur verði á hverju rekstrarsvæði þjóðgarðsins. Í þéttri, skaftfellskri rigningu stýrði svo forseti, af festu og öryggi, ferföldu húrrahrópi til heilla þjóðgarðinum sem heimsminjastað.

Nýr heimsminjaskjöldur afhjúpaður fyrir framan nýju gestastofuna við Kirkjubæjarklaustur. Frá vinstri: Sveinn Hreiðar Jensson, sveitastjórnarfulltrúi og fulltrúi í svæðisráði vestursvæðis , Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðarðsvörður og Hr. Guðni Th Jóhannsson, forseti. Mynd: Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

Seinni dag ráðstefnunnar var lögð áhersla á leiðir til að vinna að sjálfbærri ferðaþjónustu á norrænum heimsminjastöðum og verkfæri eins og vMAST kynnt (e. Visitor managment assessment and strategty tool). Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur og ljóðskáld, bauð að lokum gestum í hugarflug um æskuminningar hennar úr sveitinni og skáldsagnabrot þar sem náttúran og hinn mikli Vatnajökull voru allt umlykjandi. Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður á vestursvæði, sleit ráðstefnu og færði góðar þakkir til forseta, gesta, fyrirlesara og allra þeirra sem komu að skipulagningu ráðstefnunnar. Mikilvægi þeirra þátta sem fólust í þema ráðstefnunnar sást hvarvetna þessa lærdómsríku daga: Samvinna og samfélag voru leiðarstef í að koma á fót alþjóðlegri ráðstefnu sem þessari, með sameiginlegu átaki þjóðgarðs, ferðaþjónustu og íbúa Skaftárhrepps. Daginn eftir formlega dagskrá gafst gestum kostur á að fara Fjallabaksleið nyrðri frá Kirkjubæjarklaustri til Reykjavíkur. Á leiðinni fræddu þau Fanney Ásgeirsdóttir og Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, gestina um sérstöðu svæðisins og samvinnu í þjóðgarðinum og Friðlandi að Fjallabaki.

Næsta ráðstefna samtaka norrænna heimsminjastaða verður haldinn 2.-6. september 2024 í Petäjävesi og Jyväskylä, Finnlandi. Allar upplýsingar um þá ráðstefnu verður hægt að nálgast á heimasíðu samtakanna.

Skoðunarferð um Fjallabak að lokinni ráðstefnu. Við Ófærufoss í Eldgjá. Mynd: Helga Árnadóttir

Hvað eru samtök norrænna heimsminjastaða?

Samtök norrænna heimsminjastaða er sjálfseignarstofnun með það að markmiði að aðstoða og styðja við framkvæmd heimsminjasamnings UNESCO á Norðurlöndum. Íslendingar hafa verið aðilar að samtökunum frá stofnun þeirra árið 2016.

Arfleifð er það sem berst frá fyrri kynslóðum og við miðlum til komandi kynslóða. Menningararfur, sem og náttúruarfur, er óbætanleg uppspretta þekkingar, ánægju og innblásturs fyrir allar þjóðir og er mikilvægasta viðmið okkar með tilliti til þess hver við erum og hvaðan við komum.

Á Norðurlöndum eru meira en 43 staðir skráðir á heimsminjaskrá. Átta þessara svæða eru náttúrusvæði (sbr. Vatnajökulsþjóðgarður), eitt svæði er bæði með náttúru- og menningarminjar og síðan eru fimm skráningar yfir óáþreifanlegan menningararf.