Sjálfbærniskýrsla Vatnajökulsþjóðgarðs
Sjálfbærniuppgjör Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir árið 2020 hefur verið gefið út en þetta er jafnframt fyrsta sjálfbærniuppgjör þjóðgarðsins.
Uppgjörið byggir á þeim upplýsingum sem umhverfishugbúnaður þjóðgarðsins, Klappir, hefur safnað. Í uppgjörinu kemur m.a. fram að losunarkræfni starfsmanna minnkaði um 20% milli áranna 2020 og 2019, fór úr 3.134 kgCO2/stöðugildi í 2.513 kgCO2/stöðugildi.
Sjálfbærniskýrslu þjóðgarðsins má nálgast hér.
Við gerð losunaruppgjörs Vatnajökulsþjóðgarðs er notuð „Operational Control“ aðferðafræði þar sem fyrirtæki og stofnanir gera grein fyrir allri losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim rekstrareiningum sem þau hafa yfirráð yfir. Vatnajökulsþjóðgarður metur m.a. losun fyrir eldsneytisnotkun bifreiða í eigu og/eða rekstri þjóðgarðsins og óbeina losun vegna rafmagnsnotkunar á ákveðnum rekstrareiningum, s.s. skrifstofum og gestastofum. Að lokum er metin losun vegna meðhöndlunar úrgangs frá starfsstöðvum þjóðgarðsins, flugferða starfsmanna vegna vinnu og ferðum starfsmanna til og frá vinnu.
Umhverfisuppgjör Vatnajökulsþjóðgarðs 2020 inniheldur fyrsta kolefnisbókhald þjóðgarðsins sem skipt er niður á rekstrarsvæði, en bókhaldið nær aftur til ársins 2019. Undanfarin ár hefur þjóðgarðurinn skilað grænu bókhaldi fyrir stofnunina í heild til Umhverfisstofnunar. Losun Vatnajökulsþjóðgarðs nam 132,4 tonnum koltvísýringsígilda (tCO2Í), en það er 18,2% lækkun frá grunnári 2019. Losunarkræfni starfsmanna árið 2020 var 2,51 kgCO2Í/stöðugildi, en það er 19,8% lækkun frá grunnári. Losunarkræfni flatarmáls þjóðgarðsins var 9,0 kgCO2/km2, en var 11,0 kgCO2/km2 árið 2019. Heildarmagn úrgangs frá rekstri þjóðgarðsins árið 2020 nam 39.093 kg og var flokkunarhlutfall 16,5%.
Stærstu tækifærin til úrbóta í umhverfisstjórnun þjóðgarðsins eru í samgöngum og flokkun úrgangs. Stærstur hluti úrgangs kemur frá stóru tjaldsvæðunum í Skaftafelli og í Jökulsárgljúfrum hvar unnið er að úrbótum til að bæta möguleika gesta til flokkunar. Í samgöngum er bæði unnið að virkjun starfsmanna til vistvænni ferðamáta sem og að fjölga vistvænum farartækjum. Vert er að taka fram að mikið af starfsemi þjóðgarðsins fer fram á hálendi Íslands þar sem notkun stærri fararskjóta er enn stór hluti af starfseminni.
Á árinu 2020 var einnig skilað inn grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar og í Loftlagsstefnu voru sett fram markmið fyrir árið 2020. Í ársskýrslu Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir árið 2020 er farið yfir að hvernig til tókst að ná fram settum markmiðum.