Skógarvarðarhúsið í Ásbyrgi endurnýjað og hlýtur nýtt hlutverk
Í mynni Ásbyrgis stendur lítið, gamalt hús sem í daglegu tali nefnist Skógarvarðarhúsið. Eftir haldgóðar endurbætur á þessu 93 ára gamla íbúðarhúsi er komið að því að það takist á við næsta kafla á æviskeiðinu en það mun nú hýsa skrifstofur á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs og Landgræðslunnar. Til að fagna áfangum var boðað til kaffisamsætis í húsinu síðasta föstudag og gestum boðið að taka út framkvæmdir.
Ísak Sigurgeirsson, verslunarstjóri í Ásbyrgi, í gömlu stofunni í Skógarvarðarhúsinu sem nú er skrifstofa. Ísak var fæddur í Skógarvarðahúsinu og ólst þar upp fyrstu æviár sín. Mynd: Guðmundur Ögmundsson.
Ásbyrgi er í dag sennilega þekktast fyrir að vera eftirsóttur áfangastaður ferðamanna enda byrgið sjálft einstök náttúrusmíð og oft mikil veðursæld á svæðinu. Fram yfir miðja síðustu öld var þar hins vegar stundaður hefðbundinn búskapur. Skógarvarðarhúsið var reist sem íbúðarhús af hjónunum Sveini Þórarinsson og Karen Agnete Þórarinsson árið 1930 en þau voru ábúendur í Ásbyrgi til 1938. Þá tóku við hjónin Erlingur Jóhannsson og Sigrún Baldvinsdóttir, en 1961 urðu aftur ábúendaskipti þegar Sigurgeir Ísaksson og Sveininna Jónsdóttir tóku við búrekstrinum.
Eftir að Sigurgeir og Sveininna fluttu úr húsinu árið 1980 gengdi það ýmsum hlutverkum. Húsið var m.a. leigt til starfsmannafélags RARIK, þar var skrifstofa þjóðgarðsvarðar og gistiaðstaða starfsmanna og sjálfboðaliða. Ástand hússins var orðið ansi bágborið og í febrúar á þessu ári var hafist handa við uppgerð þess. Verkið er langt komið og í húsinu eru nú starfræktar nýjar skrifstofur á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs og Landgræðslunnar.
„Það skiptir okkur máli að nýta vel þá húsakosti sem eru á svæðinu fyrir ört vaxandi starfsemi þjóðgarðsins. Auk þess er mikill kostur að geta leigt út skrifstofurými og haft tök á fjölmennari vinnstað hér í sveitinni. Ekki má svo gleyma mikilvægi þess að viðhalda sögunni og búsetulandslaginu“, segir Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum.
En hvaðan kemur nafnið Skógarvarðarhús? Skógrækt ríkisins keypti Ásbyrgi árið 1928 og var innsti hluti byrgisins þá girtur af til verndar skóginum og skógræktinni. Erlingur og Sigurgeir voru hvor um sig umsjónarmenn Ásbyrgis fyrir hönd Skógræktarinnar, og voru þeir jafnan nefndir skógarverðir án þess að það væri opinber titill. Skýrir það afhverju húsið fékk gælunafnið „Skógarvarðarhús“. „Húsið hefur haldið þessum titli allt til dagsins í dag og mun vonandi gera það áfram“, bætir Guðmundur við.
Um 30 manns komu í heimsókn á föstudaginn, þar á meðal Ísak verslunarstjóri í Ásbyrgi sem fæddur er í Skógarvarðarhúsinu. Rifjaði hann upp með gestum minningar úr húsinu. Einnig skapaðist á meðal sveitunga fjörug umræða við eldhúsborðið um bæði gömul atvik og ný. Voru starfsmenn bæði Vatnajökulsþjóðgarðs og Landgræðslunnar sammála um að vel hefði tekist til með viðburðinn og þakka gestum kærleg fyrir komuna.