Skógræktin og Vatnajökulsþjóðgarður semja um Ásbyrgi
Í dag var undirritaður samningur á milli Skógræktarinnar og Vatnajökulsþjóðgarðs um umsjón Ásbyrgis í Kelduhverfi. Samkvæmt samningnum mun formleg umsjón jarðarinnar allrar og mannvirkja á henni færast frá Skógræktinni til Vatnajökulsþjóðgarðs.
Í dag var undirritaður samningur á milli Skógræktarinnar og Vatnajökulsþjóðgarðs um umsjón Ásbyrgis í Kelduhverfi. Samkvæmt samningnum mun formleg umsjón jarðarinnar allrar og mannvirkja á henni færast frá Skógræktinni til Vatnajökulsþjóðgarðs. Vatnajökulsþjóðgarður og Skógræktin munu engu að síður áfram eiga með sér samstarf um innri hluta Ásbyrgis og land Ásbyrgis norðan þjóðvegar.
Jörðin Ásbyrgi, eða Byrgi eins og hún hét áður, á sér athyglisverða sögu. Lengi vel var hún eign Ásverja og hluti af Ási, en síðar meir sjálfstæð bújörð. Árið 1907 komst Ásbyrgi í eigu athafnamannsins og stórskáldsins Einars Benediktssonar, ásamt jörðinni Ási. Talið er að með kaupunum hafi hann viljað tryggja sér vatnsréttindi í Jökulsá á Fjöllum, en þó voru engin slík réttindi sem fylgdu Ásbyrgi. Einar seldi jarðirnar haustið 1923 og þremur árum síðar komst Ásbyrgi í eigu Kelduneshrepps. Hreppurinn seldi jörðina til ríkissjóðs árið 1928 og var hún upp frá því í umsjá Skógræktar ríkisins.
Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður 1973. Ásbyrgi var þá utan þjóðgarðs, en varð hluti af honum árið 1978 með samvinnusamningi milli þáverandi Náttúruverndarráðs og Skógræktar ríkisins. Hélst sá samningur óbreyttur er Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum færðist undir Vatnajökulsþjóðgarð árið 2008.
Samningurinn sem undirritaður var í dag mun ekki hafa í för með sér neinar grundvallarbreytingar fyrir starfsemi í Ásbyrgi. Þó er viðbúið að hann muni einfalda ýmsa ferla, svo sem vegna gerð nýs deiliskipulags sem hefur verið í pípunum í þó nokkurn tíma.