Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Skrifstofan á Kirkjubæjarklaustri flytur í nýtt húsnæði

Frá stofnun þjóðgarðsins 2008 hefur skrifstofan verið til húsa í Kirkjubæjarstofu, í fallegu gömlu húsi framan við Systrafoss

29. mars 2021
Kirkjubæjarstofa, þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri. Mynd: Lilja Magnúsdóttir

Í febrúar var skrifstofan flutt í nýuppgert skrifstofurými sem er staðsett í efri gangi gömlu heimavistarálmu Kirkjubæjarskóla.

Í gamla húsnæði Kirkjubæjarstofu voru fleiri stofnanir með skrifstofuaðstöðu, t.d. Rannsóknarmiðstöð Landbúnaðarins, Náttúrustofa Suðausturlands og Búnaðarsamband Suðurlands auk sjálfstætt starfandi einstaklinga og starfsmanna Kirkjubæjarstofu. Í húsinu var ávallt góður andi og mikill þekkingarbrunnur. Flestar áskoranir í starfi og lífi leystust þar fljótt og vel, enda alltaf einhver til staðar með þekkingu og reynslu, sama hvert málefnið var.

Í nýja húsnæðinu eru allar þær stofnanir sem áður voru í gamla húsnæðinu og jafnframt bætast við skrifstofur Skaftárhrepps. Starfsfólk á vestursvæði er nú búið að koma sér fyrir á nýja staðnum og ljóst að góði andinn hefur flust á milli bygginga.