Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Smíði nýs salernishúss við Dettifoss hafin

Í gær var undirritaður þríhliða samningur milli Vatnajökulsþjóðgarðs, Framkvæmdasýslu ríkisins og Byggingarfélagsins Stafnsins um nýtt salernishús við Dettifoss. Samningurinn er gerður á grunni eldri samnings og útboðs, en er aðlagaður að breyttum forsendum í uppbyggingu hússins. Sú breyting felst aðallega í því að um þurrsalernislausn verður að ræða, samskonar og var reist í Vikraborgum við Öskju sumarið 2018. Þó er um mun stærri útgáfu að ræða við Dettifoss.

17. mars 2020

Teikning ARGOS af nýja salernishúsinu vestan við Dettifoss.

Þurrsalernislausnin er samkvæmt finnskri hönnun og hefur reynst mjög vel í Vikraborgum. Ekkert vatn verður á salernunum heldur safnast úrgangur í þar til gerðar tunnur og þvag fer áfram í sérstakan safntank. Stefnt er að því að efnið verði síðan nýtt til uppgræðslu á Ássandi í samstarfi við Landgræðsluna. Því má segja að jákvæð umhverfisáhrif verði af þessum nýjum salernum, en stærsti kosturinn er þó rekstraröryggið sem felst í því að hvorki stíflast né frýs í lögnum í óupphituðum húsum fjarri mannabyggðum, tæpa 350 metra yfir sjávarmáli. Aðstæður við Dettifoss eru nefnilega þannig að ekkert veiturafmagn er á staðnum og vart réttlætanlegt að keyra dísilrafstöð dag og nótt til að kynda salerni.

Í nýja húsinu verða 14 salerni auk lageraðstöðu og aðstöðu fyrir landverði. Víst má telja að húsið verði bylting fyrir gesti þjóðgarðsins sem og starfsmenn hans. Stefnt er á að húsið verði tilbúið næsta haust, en bygging þess er þegar hafin á Akureyri. Jarðvinna hefst á staðnum í vor og húsið flutt upp eftir í sumar. Stefnt er á frágang innanhúss og umhverfis húsið seinni part sumars og mögulega stendur sú vinna fram á haust.

Hönnun hússins og umhverfis þess var í höndum ARGOS, Eflu og Landmótunar auk þess sem reynsluboltar úr hópi landvarða Vatnajökulsþjóðgarðs lögðu sín lóð á vogarskálarnar við útfærslu hússins. Verkið er fjármagnað af landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.