Stuðningur við loftslagsyfirlýsingu Festu og Sveitarfélagsins Hornafjarðar
Föstudaginn 26. febrúar var undirrituð loftslagsyfirlýsing Festu og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Markmið verkefnisins er að samvinna Festu, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og fyrirtækja og stofnana á svæðinu í umhverfis og loftslagsmálum.
Föstudaginn 26. febrúar var undirrituð loftslagsyfirlýsing Festu og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Markmið verkefnisins er að samvinna Festu, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og fyrirtækja og stofnana á svæðinu í umhverfis og loftslagsmálum. Lögð er áhersla á að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að :
- Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
- Minnka myndun úrgangs
- Mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.
Vatnajökulsþjóðgarður fagnar yfirlýsingu Sveitarfélagsins Hornafjarðar og styður verkefnið enda er sjálfbær þróun og vernd náttúrunnar höfð að leiðarljósi í allri starfsemi, samvinnu og ákvarðanatöku stofnunarinnar. Stefna Vatnajökulsþjóðgarðs er að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og að vera öflugur í að miðla fræðslu til almennings um loftslags- og umhverfismál. Þjóðgarðurinn hefur sett sér markmið bæði í umhverfis-, loftlags-, innkaupa- og samgöngustefnu. Þjóðgarðurinn vinnur einnig markvisst umhverfisstarf samkvæmt Grænum skrefum ríkisstofnana. Innleiða á fjórða græna skrefið af fimm á árinu.
Yfirlýsing Sveitarfélagsins Hornafjarðar og stuðningur þjóðgarðsins við verkefnið, ásamt skýrri leiðsögn Heimsmarkmiða sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, gefur því tækifæri á enn öflugri og jákvæðari framgangi í átt að sjálfbærara samfélagi.
Steinunn Hödd Harðardóttir, starfandi þjóðgarðsvörður á suðursvæði, undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Vatnajökulsþjóðgarðs.