Sumarbráðnun Breiðamerkurjökuls ljósmynduð
Í sumar var komið upp myndavél við austurjaðar Breiðamerkurjökuls sem tekur reglulega myndir af sama stað á jöklinum. Fyrstu niðurstöður sýna vel breytingar á jökuljaðrinum á ekki lengra tímabili en sex vikum.
Myndavélin er á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði og um verkefnið sjá þeir Þorvarður Árnason, forstöðumaður rannsóknasetursins og Kieran Baxter kennari og vísindamaður í samskiptahönnun við Dundee-háskóla og einnig nýdoktor við rannsóknasetrið. Uppsetning myndavélarinnar er hluti af stærra verkefni, „Breiðamerkurjökull 2121“, samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands, Náttúrustofu Suðausturlands, Vatnajökulsþjóðgarðs og fleiri aðila. Það verkefni miðar að því að búa til sjónrænt efni sem sýnir mögulega stöðu og ásýnd Breiðamerkurjökuls árið 2121.
Myndavélin var sett upp til prófunar í sumar. En þessar fyrstu samanburðarmyndir lofa góðu og að sögn Þorðvarðs Árnasonar eru líkur á að sótt verði um framlengingu á leyfi fyrir að hafa myndavélina áfram við jökuljaðarinn, ásamt því að koma upp annarri myndavél sem tekur myndir frá öðru sjónarhorni.