Takmörkun á umferð á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs
Tímabundin lokun fyrir vetrarakstri vélknúinna ökutækja á svæði á austanverðum Breiðamerkursandi.
Tímabundin lokun fyrir vetrarakstri vélknúinna ökutækja á svæði á austanverðum Breiðamerkursandi.
Svæði á austanverðum Breiðamerkursandi, sem afmarkast af Veðurá að austan- og sunnanverðu, Jökulsárlóni að vestanverðu og núverandi ísjaðri Breiðamerkurjökuls að norðanverðu er lokað fyrir umferð vélknúinna ökutækja, skv. ákvörðun þjóðgarðsvarðar suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs. Lokun þessi tekur til vetraraksturs, þ.e. aksturs á snævi þakinni og frosinni jörð. Afmörkun er sýnd á meðfylgjandi korti í viðauka 2. Á svæðinu eru engir vegir og gildir því að öðru leyti bann við akstri vélknúinna ökutækja utan vega í Vatnajökulsþjóðgarði, sbr. 4. mgr. 15. gr. laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð. Lokunin gildir til 30. apríl 2019 og verður þörf fyrir lokun veturinn 2019-2020 metin fyrir lok september 2019.
Forsendur lokunarinnar eru eftirfarandi:
Litið er til þess að hér er um að ræða viðkvæmt svæði sem hefur komið undan jökli við hop Breiðamerkurjökuls á síðustu árum og er að mestu leyti ósnortið af manna völdum. Akstur á svæðinu gæti haft neikvæðar afleiðingar í för með sér þar sem hætta skapast á að varanleg slóð eða för myndist, jafnvel þótt jörð sé snævi þakin og frosin.
Hluti hins lokaða svæðis var hulinn jökli 1998 og því hluti Vatnajökulsþjóðgarðs frá stofnun hans, en auk þess nær lokunin til svæðis sem bætt var við landsvæði þjóðgarðsins, með reglugerð nr. 730 þann 25. júlí 2017. Tekin verður afstaða til umferðar og nýtingar á svæðinu með viðauka við stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs eða við næstu endurskoðun hennar.
Ákvörðun þessi byggir á heimild í 7. mgr. 15. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007, sbr. 14. gr. laga nr. 101/2016. Sömu lög kveða á um mótun og gildistöku stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins.
Ákvörðunin var birt í B-deild stjórnartíðinda þann 26. nóvember 2018, nr. 226/2018. PDF skjalið með uppdráttum má nálgast hér í auglýsingu stjórnartíðinda.