Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Þjóðgarðarnir tóku þátt á Mannamóti 2025

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna fór fram þann 16. janúar í Kórnum Kópavogi. Snæfellsjökulsþjóðgarður og Vatnajökulsþjóðgarður tóku þátt að vanda.

29. janúar 2025

Mannamótin eru kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni.


Sú hefð hefur skapast að svæði Vatnajökulsþjóðgarðs taka þátt til skiptis. Í ár mættu fulltrúar frá austursvæði, þau Agnes Brá Birgisdóttir þjóðgarðsvörður og Ásmundur Máni Þorsteinsson landvörður. Verkefnin á austursvæði eru fjölbreytt og samstarf er við ólíka hagsmunaraðila og stofnanir bæði í heimabyggð og á landsvísu. Hjartað í starfseminni er ávallt landvarsla, fræðsla og gestamóttaka. Fyrstu verðlaun í getraun Vatnajökulsþjóðgarðs á Mannamóti fékk Ólöf Bjarnadóttir og í verðlaun er gisting í Snæfellsskála og hádegisverðahlaðborð hjá Klausturkaffi á Skriðuklaustri. Önnur verðlaun, gisting í Sigurðarskála í Kverkfjöllum, hlaut Jónas Ingi Þórunnarson. Við óskum vinningshöfum til hamingju og þökkum öllum þeim sem svöruðu getrauninni og höfðu áhuga á að afla sér þekkingar á þjóðgarðinum.

Frá Snæfellsjökulsþjóðgarði voru Eva Dögg Einarsdóttir, yfirlandvörður, og Ingunn Ýr Angantýsdóttir, þjónustustjóri. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Snæfellsjökulsþjóðgarði undanfarin ár og ber þar helst að nefna nýja og glæsilega þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi.

Gott samtal og þekking milli ferðaþjónustunnar og þjóðgarðanna skiptir því miklu máli til að ná að uppfylla markmið þjóðgarðanna um verndun náttúru- og menningarminja, aðgengi, upplifun og fræðslu um náttúru- og menningarverðmæti hans.