Þrjár sýningar opna í Skaftafelli
Föstudaginn 24. maí opnuðu þrjár sýningar í Skaftafellsstofu við mikinn fögnuð viðstaddra.
Föstudaginn 24. maí opnuðu þrjár sýningar í Skaftafellsstofu við mikinn fögnuð viðstaddra. Skaftafellsstofa hefur lengi þurft andlitslyftingu og var þessi opnun því kærkomin.
Fyrst ber að nefna fræðslusýninguna í aðalrými gestastofunnar þar sem fjallað er um Skaftafell á víðum grunni, allt frá jarðfræði svæðisins yfir í búsetu. Farið er yfir sögu Skaftafellsþjóðgarðs sem var stofnaður 1967 vegna náttúrufars og náttúrufegurðar. Frá 2008 hefur Skaftafell tilheyrt Vatnajökulsþjóðgarði sem er í dag kominn á heimsminjaskrá UNESCO.
Fræðslusýning í Skaftafellsstofu / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir
Fræðslusýning í Skaftafelli / Jón Ágúst Guðjónsson
Því næst er sýningin Frá heimili til heimsminja í betri stofunni og er tileinkuð Laufeyju Lárusdóttur sem var húsmóðir í Skaftafelli. Laufey hafði brennandi áhuga á ljósmyndun og gefa myndirnar einstaka sýn inn í lífið í Hæðum fyrir og eftir stofnun þjóðgarðsins. Þær sýna að hluta til horfinn heim en einnig tók Laufey tímalausar myndir af gróðri og landslagi.
Betri stofan í Skaftafelli / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir
Síðast en alls ekki síst opnaði sýningin Eldur, ís og mjúkur mosi sem var unnin af leik- og grunnskólabörnum í Grunnskólanum í Hofgarði undir leiðsögn Evu Bjarnadóttur og nemendum í Grunnskóla Hornafjarðar undir leiðsögn Hönnu Dísar Whitehead. Þetta er hluti af samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs við skóla umhverfis Vatnajökul og listafólks í nágrenni þeirra.
Eldur, ís og mjúkur mosi / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir
Á opnuninni hlýddu gestir á ljúfa tóna í boði Öræfingakórsins og nutu veitinga.
Við hvetjum öll til að gera sér ferð í Skaftafell í sumar og skoða sýningarnar og njóta einstakrar náttúru.