Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Þurrsalernissumarið mikla á norðurhálendi 

Alþjóðlegi salernisdagurinn (e. World Toilet Day) er haldinn hátíðlegur 19. nóvember ár hvert.

19. nóvember 2024
Útsýni af þurrsalernunum var mikilvægt í vali á staðsetningu. Útsýnið í Bræðrafelli hlýtur að teljast eitt besta salernisútsýni sem hugsast getur. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið upp á daginn frá 2013 til að fagna salernum og vekja athygli á þeim 3,6 milljörðum manna sem ekki hafa aðgang að öruggri hreinlætisaðstöðu. Í tilefni dagsins er tilvalið að vekja athygli á nýjum þurrsalernum sem komu upp á norðurhálendi í sumar og segja ferðasögu þeirra. Verkefnið er mikið samstarfsverkefni eins og ferðasaga þeirra gefur til kynna en fjármögnun kemur úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum.

Þurrsalerni, fyrir þau sem ekki þekkja, myndu flest kalla kamra. Þurrsalerni eru tilvalin til notkunar þar sem aðgengi að vatni og rafmagni er takmarkað. Munurinn á þessum þurrsalernum og hinum hefðbundnu kömrum er að í þurrsalernunum er ekki grafin hola fyrir úrganginn, heldur fer hann í tunnu, sem auðvelt er að skipta út og er afurðin síðan nýtt til uppgræðslu. Slíkum þurrsalernum hefur verið komið upp á þónokkrum stöðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs á síðustu árum, með það að markmiði að þjónusta gesti þjóðgarðsins betur og til verndar umhverfi og ásýnd. Þurrsalernin eru hönnuð og smíðuð eftir grunnhugmynd og hönnun Þórhalls Þorsteinssonar hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs og eru smíðuð af Herði Sigurðssyni á Egilsstöðum og hófst því ferðalag þeirra fyrir austan.

Verkefnið er mikið samstarfsverkefni eins og ferðasaga þeirra gefur til kynna en fjármögnun kemur úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum.

Í sumar voru tekin í notkun fjögur ný þurrsalerni á norðurhálendi. Það fyrsta fór í Bræðrafell, en þangað er enginn vegur og þurfti því að flytja það á snjó. Í lok mars fór því vaskur hópur frá Ferðafélagi Akureyrar, Björgunarsveitinni Súlum og Björgunarsveitinni Stefáni af stað á hinum ýmsu tækjum til að koma þurrsalerninu í Bræðrafell. Snjóbíll reyndist besta farartækið í verkið, en aðrir bílar sneru við vegna snjóþunga. Þetta hófst á endanum og var salerninu komið fyrir við skálann. Í lok júní gekk hópur frá Herðubreið í Bræðrafell, kom þurrsalerninu fyrir á sínum stað og festu það niður.

Útsýnið af þurrsalerninu í Herðubreiðarlindum.

Næsta þurrsalerni fór í Herðubreiðarlindir í júlí. Ferðalag þess var ekki jafn ævintýralegt, en var því skipt út fyrir gamla kamarinn sem var orðinn úr sér genginn og fullur. Vígsla þess fór fram í 50 ára friðlýsingarafmæli Herðubreiðarlinda í lok júlí. Gestum gafst jafnframt tækifæri til að nota það sem myndakassa (e. photo-booth) og vakti það mikla lukku meðal gesta.

Þriðja þurrsalernið fór í Drekagil í byrjun ágúst og gekk ferðalag þess einnig vel. Var því komið fyrir við enda bílastæðis og kemur í stað gamla kamarsins á tjaldsvæðinu. Í Drekagili og Herðubreiðarlindum eru frábær vatnssalerni. Þurrsalernin eru því ætluð til notkunar á jaðartímum, þegar vatnssalernin hafa ekki vatn.

Útsýnið af þurrsalerninu í Drekagili.

Þriðja þurrsalernið fór í Drekagil í byrjun ágúst og gekk ferðalag þess einnig vel. Var því komið fyrir við enda bílastæðis og kemur í stað gamla kamarsins á tjaldsvæðinu. Í Drekagili og Herðubreiðarlindum eru frábær vatnssalerni. Þurrsalernin eru því ætluð til notkunar á jaðartímum, þegar vatnssalernin hafa ekki vatn.

Útsýnið af þurrsalerninu við Botna.

Fjórða þurrsalernið fór við Botna með dyggri aðstoð Ferðafélags Akureyrar og Björgunarsveitarinnar Súlna. Gamli kamarinn þar var rifinn niður og kom nýja þurrsalernið í hans stað.

Seinasta þurrsalernið, sem á að fara við Gæsavötn, komst ekki upp sökum haustlægða og bíður það eftir vorinu með að komast á sitt nýja heimili.

Þökkum við öllum þeim sem aðstoðuðu okkur við flutning og uppsetningu kærlega fyrir góða og skemmtilega samvinnu. Vonandi njóta gestir þjóðgarðsins nýju þurrsalernanna vel.

Fleiri myndir frá ferðalögum þurrsalerna á norðurhálendi

Hér má finna fleiri skemmtilegar myndir frá uppsetningu þurrsalerna á norðurhálendi í sumar