Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Til hamingju Vigdís Finnbogadóttir!

Frú Vigdís Finnbogadóttir er níræð í dag 15. apríl og er tímamótunum fagnað víðsvegar um landið, meðal annars með hátíðardagskrá á RÚV í kvöld kl. 20:00. Vigdís var forseti á árunum 1980-1996 í alls sextán ár og lagði hún rækt við menningu, tungumál og skógrækt. Eftir embættistíð sína hefur hún verið velgjörðasendiherra tungumála hjá UNESCO, unnið gjöfult starf í þágu náttúruverndar og meðal annars talað fyrir stofnun þjóðgarðs á hálendinu.

15. apríl 2020

Vigdís var forseti á árunum 1980-1996 í alls sextán ár og lagði hún rækt við menningu, tungumál og skógrækt. Eftir embættistíð sína hefur hún verið velgjörðasendiherra tungumála hjá UNESCO, unnið gjöfult starf í þágu náttúruverndar og meðal annars talað fyrir stofnun þjóðgarðs á hálendinu.

Til gamans má geta að Vigdís heimsótti Austur-Skaftfellinga í júlí 1989, heilsaði upp á fólk, gróðursetti birkitré og ók vélsleða á Skálafellsjökli. Á þeim tíma var þjóðgarður í Skaftafelli, stofnaður árið 1967 og einnig var þjóðgarður í Jökulsárgljúfrum síðan 1973. Það var svo árið 2008 að svæðin voru sameinuð í Vatnajökulsþjóðgarð.

Hér er brot úr grein Morgunblaðsins um ferð Vigdísar 18. júlí 1989 ásamt skemmtilegum myndum:

,,Frú Vigdís kom til Austur-Skaftafellssýslu með vél Flugmálastjórnar árdegis á laugardag. Í för með henni voru Kornelíus Sigmundsson forsetaritari og kona hans Inga Hersteinsdóttir, auk Kristínar Sigurbjörnsdóttur, fylgdarkonu forseta.
Eftir að sýslunefnd hafði heilsað gestunum við flugvöllinn á Fagurhólsmýri var ekið að félagsheimili Öræfinga í Hofgarði.
Forsetabifreiðinni fylgdu meðal annars tveir lögreglubílar og jeppi með birkiplöntur, sem forsetinn gróðursetti í hverjum hreppi.
Við Hofgarð fékk frú Vigdís aðstoð barna úr Öræfum við að gróðursetja þrjú birkitré tileinkuð stúlkum, drengjum og ófæddum börnum í sveitinni. Að svo búnu heilsaði hún upp á Öræfinga í kaffisamsæti í félagsheimilinu og þáði að gjöf trafakefli, útskorið af Halldóri Sigurðssyni í Miðhúsum.
Óvæntur glaðningur fyrir tjaldgesti í Skaftafelli.
Skaftafell var næst heimsótt og fyrst farið að Lambhaga í fylgd Stefáns Benediktssonar þjóðgarðsvarðar. Óvenju margir tjaldgestir voru í Skaftafelli um helgina, ríflega þúsund, og sagði gamall Skaftfellingur að hann myndi vart annað eins. Nokkrir erlendir ferðamenn, sem staddir voru nærri þegar frú Vigdís kom til hádegisverðar í þjónustumiðstöðina, kváðust harla ánægðir með að hafa séð forsetann, þetta væri óvæntur glaðningur. Hópur Þjóðverja sem fylgdist grannt með framvindu mála var sammála um að þar færi "eine sehr sympatische Frau" - sérdeilis geðþekk kona.
Úr Skaftafelli var ekið að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi þar sem farið var í bátsferð innan um ísjakana. Á leið í vatnadrekann Jökul gaf Vigdís sig snöggvast á tal við nokkra franska ferðalanga, en slangur af fólki var statt við lónið.''