Beint í efni

Tilkynning frá Vatnajökulsþjóðgarði vegna greinargerðar Ríkisendurskoðunar

Tilkynning frá Vatnajökulsþjóðgarði vegna greinargerðar Ríkisendurskoðunar um rekstur og skipulag

31. október 2019

Samantekt

  • Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Vatnajökulsþjóðgarð mun nýtast vel í áframhaldandi umbótastarfi Vatnajökulsþjóðgarðs sem staðið hefur undanfarið ár. Umbótastarfið hófst í júní 2018 og hefur gengið vel í góðu og víðtæku samstarfi við fjölmarga aðila.
  • Árangur þess að skilgreina markvisst ferla og verklag varðandi fjármál skilaði sér strax en markmiðið var að tryggja nauðsynlega yfirsýn og festu. Ársreikningi ársins 2018 var skilað með 19 milljóna króna jákvæðri niðurstöðu og á árinu 2019 er stefnt að því að skila rekstrinum með um 60 milljóna króna afgangi til að vinna á neikvæðri stöðu eiginfjár hjá stofnuninni.
  • Áður en umbótastarfið hófst hafði verið bent á nauðsyn þess að efla miðlæga starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Stofnunin tók þá ábendingu strax til umfjöllunar og mikilvæg skref hafa nú verið stigin með styrkingu á miðlægri skrifstofu þjóðgarðsins.
  • Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfar öflugur hópur starfsfólks sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á uppbyggingu og rekstri eins stærsta þjóðgarðs í Evrópu sem er einstakur á heimsvísu. Það fékkst rækilega staðfest sl. sumar en þá samþykkti heimsminjaráð UNESCO að setja Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá.

Inngangur

Veturinn 2018 var unnin rekstar- og stjórnsýsluúttekt á stofnuninni að beiðni umhverfis- og auðlindaráðherra af fyrirtækinu Capacent. Í framhaldi af úttektinni, sem birt var 11. júní 2018, létu framkvæmdastjóri og stjórnarformaður af störfum. Í kjölfarið var núverandi framkvæmdastjóri settur í starf, fyrst til eins árs og svo skipaður til fimm ára.

Í skýrslu Capacent komu fram ábendingar um alvarleg frávik í rekstri á árinu 2017, auk þess sem bent var á ýmis atriði sem betur mættu fara varðandi áætlanagerð, formfestu og ferlum í mikilvægum málum. Einnig kom skýrt fram að miðlæg skrifstofa Vatnajökulsþjóðgarðs væri undirmönnuð og vanbúin m.a. til að sinna daglegum rekstri. Þessar ábendingar tók stofnunin strax til umfjöllunar með það að markmiði að laga og færa til betri vegar. Á fundi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs þann 29. júní 2018 var fjallað um Capacent skýrsluna og var eftirfarandi m.a. bókað:

„Stjórn felur framkvæmdastjóra að vera í samskiptum við Ríkisendurskoðun varðandi eftirfylgni vegna skýrslunnar og áætlun um úrbætur.”

Á grundvelli framangreindrar bókunar óskaði framkvæmdastjóri eftir því að Ríkisendurskoðun veitti aðstoð við að greina enn frekar þann vanda sem lýst er í skýrslu Capacent. Ríkisendurskoðun staðfesti með bréfi dags. 17. ágúst 2018 að stofnunin hefði ákveðið að hefja úttekt á Vatnajökulsþjóðgarði á grundvelli 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Nú ríflega ári síðar er skýrsla Ríkisendurskoðunar komin út og mun hún nýtast vel í áframhaldandi umbótastarfi Vatnajökulsþjóðgarðs sem hefur staðið undanfarið ár.

Umbætur vel á veg komnar

Í júní 2018 hófst umbótastarf í stofnuninni Vatnajökulsþjóðgarði sem enn stendur yfir. Þetta stóra verkefni hefur gengið mjög vel í góðu samstarfi við stjórn stofnunarinnar, svæðisráð, þjóðgarðsverði og aðra starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs, auk þess sem náið samráð hefur verið við umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er meðal annars bent á nauðsyn þess að efla miðlæga starfsemi Vatnajökulsþjóðagarðs og hafa nú þegar verið stigin mikilvæg skref í þá átt með ráðningu sérfræðings, fræðslufulltrúa og mannauðsstjóra (50% starf) og er unnið enn frekar að eflingu hennar á ýmsum sviðum.

Bætt eftirlit með rekstri

Frá því sumarið 2018 hefur markvisst verið unnið að því að skilgreina ferla og verklag í fjármálum Vatnajökulsþjóðgarðs með það að markmiði að tryggja nauðsynlega yfirsýn og festu. Árangur þess skilaði sér strax á seinni hluta ársins 2018 og var ársreikningi þess árs skilað með 19 milljóna jákvæðri niðurstöðu. Á árinu 2019 er stefnt að því að skila rekstrinum með um 60 milljóna afgangi til að greiða upp í hallarekstur fyrri ára.

Starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs

Þrátt fyrir að áframhaldandi umbóta sé þörf eins og að styrkja miðlæga skrifstofu starfseminnar og auka faglega getu innan Vatnajökulsþjóðgarðs hefur starfsemin gengið almennt vel. Á sama tíma og margt í starfseminni er að komast í skýran farveg, er unnið að frumvarpi til laga hjá stjórnvöldum um nýja stofnun sem færi með málefni allra þjóðgarða og annarrar náttúruverndar sem ætlað m.a. að efla starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs og gera hana skilvirkari.

Framtíðin er björt hjá Vatnajökulsþjóðgarði þrátt fyrir tímabundna vaxtarverki. Hjá þjóðgarðinum starfar öflugur hópur starfsmanna sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á uppbyggingu og rekstri eins stærsta þjóðgarðs í Evrópu sem er einstakur á heimsvísu. Það fékkst rækilega staðfest sl. sumar, en þann 5. júlí samþykkti heimsminjaráð UNESCO að setja Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá.

Virðingarfyllst

Magnús Guðmundsson

f.h. Vatnajökulsþjóðgarðs

Hlekkur á skýrslu Ríkisendurskoðunar