Tilkynning um breytingar á þjónustu í Ásbyrgi og Vesturdal
Óhætt er að fullyrða að COVID-19 hafi sett strik í reikninginn hvað varðar veitta þjónustu í Ásbyrgi þetta vorið. Veiran er þó ekki ein á ferð því harður vetur hefur einnig haft áhrif á opnun tjaldsvæðis og svo eru fyrirhugaðar umtalsverðar framkvæmdir sem munu rýra aðgengi að Gljúfrastofu og Vesturdal. Af þessum sökum verða eftirfarandi breytingar á þjónustu.
Gljúfrastofa verður áfram opin alla virka daga frá 11 til 15, til og með 19. maí. Frá og með 20. maí og út júní verður Gljúfrastofa opin alla daga frá 10 til 16. Í júlí og ágúst verður Gljúfrastofa opin alla daga frá 9 til 18.
Frá miðjum maí og í júní eru fyrirhugaðar umtalsverðar framkvæmdir við Gljúfrastofu. Jarðvegsskipti fara fram á bílastæðinu og það síðan malbikað. Um leið verður gerður malbikaður göngu- og hjólastígur frá Gljúfrastofu að tjaldsvæði. Til að vega upp á móti skertri þjónustu í Gljúfrastofu verður landvörður á vakt í afgreiðsluhúsi tjaldsvæðisins, Álfhóli, alla daga á tímabilinu 11. – 30. júní frá 16:00 til 20:30. Mun landvörðurinn veita almennum gestum upplýsingar, auk þess sem hann þjónustar gesti tjaldsvæðisins.
Varðandi sjálft tjaldsvæðið í Ásbyrgi þá er staðan þar þannig að ennþá eru töluverðir snjóskaflar á tjaldflötum og aurbleyta í jarðvegi. Þar af leiðandi er ekki hægt að hleypa umferð á það strax, en stefnt er á að opna tjaldsvæðið fyrir umferð þann 15. maí. Viðbúið er að fjöldatakmarkanir gildi, en tilkynnt verður um þær síðar.
Enn er óljóst hvenær hægt verður að opna tjaldsvæðið í Vesturdal, en þar eru vegaframkvæmdir fyrirhugaðar í lok maí og fram eftir júní, og samhliða þeim þarf að leggja nýjar vatnslagnir í salernishús á svæðinu. Þó verður reynt að opna tjaldsvæðið eins snemma og mögulegt er fyrir þá sem ferðast með allt sitt á bakinu, s.s. þá sem eru að ganga á milli Dettifoss og Ásbyrgis.