Tillaga SP(R)INT STUDIO & Nissen Richards vinnur samkeppni um sýningu í nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri
Niðurstöður hafa verið birtar í hönnunarsamkeppni um sýningu í nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri. Það voru fransk-íslenska hönnunarfyrirtækið SP(R)INT STUDIO ásamt Nissen Richards Studio sem báru sigur úr býtum en þrjár tillögur voru í lokasamkeppninni eftir forval hjá Ríkiskaupum, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Vatnajökulsþjóðgarði.
Niðurstöður hafa verið birtar í hönnunarsamkeppni um sýningu í nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri. Það var fransk-íslenska hönnunarfyrirtækið SP(R)INT STUDIO ásamt Nissen Richards Studio sem bar sigur úr býtum en þrjár tillögur voru í lokasamkeppninni eftir forval hjá Ríkiskaupum, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Vatnajökulsþjóðgarði.
Teymin þrjú skiluðu öll inn framúrskarandi tillögum um hönnun á sýningu og lausnum fyrir gestastofuna í heild. Lokatillögurnar verða settar upp á Uppskeruhátíð Skaftárhrepps þann 19. október næstkomandi þegar boðið verður í kaffisamsæti í húsinu.
Hönnunarsamkeppnin var í tveimur þrepum þar sem þrjú teymi voru valin í forvali til að vinna að og leggja fram lokatillögur undir nafnleynd að hönnun og uppsetningu grunnsýningarinnar. Þrjár samkeppnir í þjóðgörðum voru auglýstar á Evrópska efnahagssvæðinu í apríl 2023 fyrir þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Hellissandi, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri og gestastofu Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs á Skútustöðum við Mývatn. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs var ráðgefandi aðili samkeppninnar en Ríkiskaup sáu um framkvæmd hennar. Tvær dómnefndir voru skipaðar, hvor fyrir sitt þrep keppninnar, af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Vatnajökulsþjóðgarði. Af þeim þremur teymum sem valin voru í forvalinu fyrir Kirkjubæjarklaustur voru tvö íslensk og eitt erlent.
Sýningunni í nýrri gestastofu á Kirkjubæjarklaustri er ætlað að höfða til breiðs hóps, jafnt heimafólks sem innlendra og erlendra gesta. Sérstök áhersla verður á náttúrufar vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs sem nær frá Kirkjubæjarklaustri og norður yfir Lakagíga, Eldgjá og að Nýjadal. Einnig er horft sérstaklega til mannlífs og seiglu íbúa í gegnum margar stærstu náttúruhamfarir frá landnámi.
Aðstandendur keppninnar þakka öllum fyrir góða þátttöku og óska SP(R)INT STUDIO og Nissen Richards Studio til hamingju.