Umfjöllun stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs vegna umsókna um leyfi til að stunda siglingar á Jökulsárlóni
Jökulsárlón við rætur Breiðamerkurjökuls er ein af helstu náttúruperlum Íslands og þangað koma fjölmargir íslenskir og erlendir ferðamenn ár hvert.
Jökulsárlón við rætur Breiðamerkurjökuls er ein af helstu náttúruperlum Íslands og þangað koma fjölmargir íslenskir og erlendir ferðamenn ár hvert. Mikið álag er á svæðinu bæði vegna fjölda ferðamanna og vegna ásóknar fyrirtækja sem vilja veita ferðamönnum þjónustu s.s. með siglingum á lóninu. Fjöldi ferðamanna á Jökulsárlóni hefur aukist til muna síðustu ár. Árið 2014 heimsóttu tæp 350 þúsund manns svæðið en árið 2017 var fjöldinn kominn í tæp 800 þúsund. Á góðum sumardegi í júlí má búast við að á einum degi komi um fjögurþúsund manns að lóninu.
Í júlí á síðasta ári undirritað Björt Ólafsdóttir þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra reglugerð um friðlýsingu Jökulsárlóns og umfangsmikilla svæða sem liggja að lóninu og um leið var svæðið fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Með friðlýsingunni tók Vatnajökulsþjóðgarður m.a. yfir þá samninga sem í gildi voru á svæðinu vegna ferðaþjónustuaðila sem höfðu starfað þar undanfarin ár. Með því að fella svæðið inn í Vatnajökulsþjóðgarð er markmiðið að tryggja sjálfbærni svæðisins og að verndun og stjórnun þess verði betur samræmd, m.a. hvað varðar umgengni og öryggi ferðamanna. Einnig er mikilvægt markmið að skipulagsmálum varðandi vegi, bílastæði og byggingar við Jökulsárlón verði komið í eðlilegt horf á grundvelli samþykkts deiliskipulags. Svæðið er hluti rekstrareiningar suðursvæðis þjóðgarðsins og svæðisráðs sem er undir formennsku sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Á fundi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs þann 12. júlí 2018 var m.a. fjallað um umsóknir fjögurra fyrirtækja sem óska eftir að fá leyfi til siglinga á Jökulsárlóni en samkvæmt 1. mgr. 15. gr. a. laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð er óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við þjóðgarðinn. Vegna þessara umsókna og þess gríðarlega álags sem er á svæðinu telur stjórn mikilvægt að fram fari greining á þolmörkum svæðisins við Jökulsárlón samfara vinnu við stjórnunar- og verndaráætlun og deiliskipulag fyrir svæðið. Stjórn hafnaði því framangreindum umsóknum fyrirtækja um að hefja siglingar á Jökulsárlóni þar sem hvorki liggur fyrir stjórnunar- og verndaráætlun né skipulag fyrir svæðið.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leggur áherslur á að gerð nýs deiliskipulags við Jökulsárlón í samvinnu við Sveitarfélagið Hornafjörð og vinna við gerð stjórnunar og verndaráætlunar fyrir svæðið geti hafist sem allra fyrst þannig að Jökulsárlón og nálæg svæði sem færðust með friðlýsingu undir Vatnajökulsþjóðgarð á síðasta ári fari inn í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins.