Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í heimsókn

Þann 1. febrúar tók starfsfólk suðursvæðis og aðalskrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs á móti Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, á skrifstofur Vatnajökulsþjóðgarðs í Nýheimum á Höfn í Hornafirði. Nýr stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs, Jón Helgi Björnsson, var einnig með í för ásamt starfsfólki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.

2. febrúar 2023
Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, starfsfólki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Sigurjóni Andréssyni bæjarstjóra í sveitarfélaginu Hornafirði, fulltrúum bæjarráðs og Jóni Helga Björnssyni stjórnarformanni Vatnajökulsþjóðgarðs. (Mynd: Steinar Ingi Kolbeins)

Guðlaugur Þór byrjaði daginn á fjarfundi frá Höfn í Hornafirði til að kynna breytingu á stofnanaskipulagi þeirra stofnana sem heyra undir umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið. Tíu stofnanir af stofnunum ráðuneytisins verða sameinaðar í þrjár - Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun og Loftslagsstofnun. Megináhersla er þar lögð á að tryggja áfram fyrirliggjandi mannauð og þekkingu og að starfsfólk njóti forgangs til nýrra starfa. Vatnajökulsþjóðgarður mun tilheyra Náttúruverndar- og minjastofnun.

„Stóra markmiðið er að efla stofnanir ráðuneytisins til að takast á við gríðarlegar áskoranir sem bíða okkar sem samfélags og eru þar loftslagsmálin efst á blaði. Með nýju stofnanaskipulagi er stefnt að því að auka skilvirkni og draga úr sóun sem hlýst af tvítekningu og skorti á sam­starfi. Einnig eru mikil sókn­arfæri í­ fjölgun starfa á landsbyggðinni, fjölgun á störfum óháð stað­setn­ingu og upp­bygg­ingu eft­ir­sókn­ar­verðra vinnu­staða.“ – segir Guðlaugur Þór Þórðarson (fengið af vef stjórnarráðsins, Stjórnarráðið | Þrjár öflugar stofnanir í stað tíu (stjornarradid.is)

Frá kynningu Steinunnar Haddar, þjóðgarðsvarðar á austanverðu suðursvæði.

Eftir fjarfundinn tók starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs vel á móti ráðherranum og fóru í kynningarferð um skrifstofur Vatnajökulsþjóðgarðs sem staðsettar eru í Nýheimum Þekkingarsetri. Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður á austanverðu suðursvæði, fór síðan yfir stöðu mála með kynningu á svæðinu og verkefnunum. Áhersla var lögð á uppbyggingu á framtíðaraðstöðu Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn en flutningur á aðsetri og lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs varð 1. september síðastliðinn. Mikil samstaða og samstarfsvilji er á milli Vatnajökulsþjóðgarðs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um uppbyggingu á húsnæði fyrir Vatnajökulsþjóðgarð á Höfn, bæði skrifstofur og aðstöðu til þess að taka á móti og fræða þá gesti sem heimsækja svæðið.

Við þökkum ráðherra, stjórnarformanni og fylgdarliði fyrir heimsóknina og góðar umræður.