Umsóknarfrestur leyfa fyrir kvikmyndatökur og notkun á dróna lengdur
Umsóknarfrestur fyrir kvikmynda- og auglýsingagerð er nú alltaf 30 dagar, en var áður 7 dagar væri fjöldi starfsmanna við verkefnið 10 eða færri.
Öll kvikmyndagerð, auglýsingagerð og önnur slík starfsemi, sem og notkun fjarstýrðra loftfara (dróna) innan Vatnajökulsþjóðgarðs er háð leyfi viðkomandi þjóðgarðsvarðar sbr. 1 mgr. 18 gr. reglugerðar nr. 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarð.
Á starfsmannafundi Vatnajökulsþjóðgarðs sem haldinn var þriðjudaginn 17. september sl. var tekin ákvörðun um að lengja umsóknarfrest þessara leyfa. Umsóknarfrestur fyrir kvikmynda- og auglýsingagerð er nú alltaf 30 dagar, en var áður 7 dagar væri fjöldi starfsmanna við verkefnið 10 eða færri. Umsóknarfrestur fyrir notkun fjarstýrðra loftfara er nú 14 dagar, en var áður 7 dagar.
Á síðasta ári hefur fjöldi umsókna um slík leyfi margfaldast og vinna við afgreiðslu leyfanna aukist jafnhliða því. Með lengri umsóknarfresti aukast líkurnar á því að starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs nái að vinna leyfin og svara umsóknum.