Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Uppbygging á þjónustusvæðum suður- og vestursvæðis

Þann 1. september var formlegt aðsetur Vatnajökulsþjóðgarðs fært til Hafnar í Hornafirði. Í ljósi þess, sem og þeirra stóru verkefna sem eru í framkvæmd og fyrirhuguð á suður- og vestursvæði þjóðgarðsins, fór starfsfólk nokkurra stofnana og ráðuneytis í skoðunarferð um helstu þjónustusvæðin dagana 7.-8. september.

12. september 2022

Við Jökulsárlón. Mynd: Magnús Guðmundsson.

Vel þarf að standa að uppbyggingu opinberra innviða og því mikilvægt að eiga gott samtal og hafa góða yfirsýn. Þátttakendur í ferðinni um suður- og vestursvæðið voru starfsmenn frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Framkvæmdasýslunni-Ríkiseignum, Vatnajökulsþjóðgarði og Sveitarfélaginu Hornafirði, ásamt því sem fundað var á Höfn með bæjarstjóra og bæjarstjórnarfulltrúum sveitarfélagsins.

Á Höfn var farið í heimsókn í núverandi gestastofu þjóðgarðsins í Gömlubúð og eins var komið við í Nýheimum hvar starfsmenn þjóðgarðs eru einnig með aðsetur. Á ferðum milli staða voru m.a. ræddar hugmyndir um framtíðaraðstöðu Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn. Seinnipart sama dags var farið í Suðursveit og skoðuð ný og vönduð starfsmannaaðstaða á Hrollaugsstöðum. Einnig var farið að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi en þar er fyrirséð að ráðast þurfi í umfangsmikla uppbyggingu innviða enda um að ræða einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins.

Seinni daginn var Skaftafell og Kirkjubæjarklaustur sótt heim. Í Skaftafelli hefur farið fram mikil styrking innviða og ber þar hæst að nefna fráveitumannvirki og bætt aðstaða fyrir aðrar veitur og tæki. Brýnustu verkefnin í Skaftafelli núna eru að bæta aðstöðu fyrir starfsfólk og fræðslu. Á Kirkjubæjarklaustri var staðan tekin á byggingu nýrrar, glæsilegrar gestastofu, sem fyrirhugað er að opna í maí á næsta ári.

Það er ljóst að verkefnin framundan á suður- og vestursvæði eru mörg, fjölbreytt og umfangsmikil. Samstillt átak opinberra aðila skiptir þar lykilmáli og ferð sem þessi gott veganesti fyrir samstarfið framundan.

Sjá fleiri myndir úr ferðinni hér á facebook síðu þjóðgarðsins.